Innlent

Kvikmyndir frá öllum heimshornum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Meðal gesta hátíðarinnar í ár er danski stórleikarinn Mads Mikkelsen.
Meðal gesta hátíðarinnar í ár er danski stórleikarinn Mads Mikkelsen. MYND/ SÓ
Boðið verður upp á hátt í sjötíu kvikmyndir frá rúmlega þrjátíu löndum á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF, sem hefst í næstu viku. Meðal gesta hátíðarinnar í ár er danski stórleikarinn Mads Mikkelsen.

Dagskrá hátíðarinnar var kynnt með formlegu hætti í dag en þetta er í 15. sinn sem hún er haldin.

„Ég myndi segja að hátíðin hafi virkilega náð að festa sig í sessi og við finnum það á allri umfjöllun erlendis líka að við erum komin inn á þetta alþjóðlegakvikmyndahátíðarkort,“ segir Hrönn Marinósdóttir stjórnandi RIFF.

Þema hátíðarinnar er 100 ára afmæli fullveldis Íslands og þá verður sjónunum einnig beint að Eystrasaltslöndunum. Danski leikarinn Mads Mikkelsen er einn af heiðursgestum hátíðarinnar í ár.

Hrönn segir það hafi tekið tíma að fá Mikkelsen til að mæta á hátíðina.

„En svo bara gekk það. Þetta er stundum þannig. Stundum þarf maður að bjóða nokkrum sinnum og svo vilja þeir endilega koma. Við höfum verið svo heppin í gegnum tíðina að fá fjöldann allan af heimsþekktum kvikmyndaleikstjórum og stjörnum sem segir manni að hátíðin er komin á ákveðinn stað í alþjóðlegu samhengi,“ segir Hrönn.

Boðið verður upp á marga sérviðburði á meðan á hátíðinni stendur og einnig svokallaða bransadaga þar sem ungir kvikmyndagerðarmenn deila hugmyndum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×