Innlent

Ólga meðal starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm
Mikil ólga er meðal starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og dótturfyrirtækja vegna umræðu um hegðun þriggja stjórnenda þar innanhúss. Stjórnendurnir þrír hafa undanfarna daga ýmist verið sakaðir um kynferðislega áreitni í starfi eða kynferðisbrot áður en störf hófust.

Starfsmannafundur hjá OR var haldinn í gær vegna máls Bjarna Más Júlíussonar, sem sagt var upp störfum vegna óviðeigandi hegðunar í garð samstarfskvenna sinna og þeirrar stöðu sem upp er komin.

Fréttablaðið hefur eftir starfsfólki sem sat fundinn að svör Sólrúnar Kristjánsdóttur, starfsmannastjóra OR, hafi vakið nokkra furðu. Á fundinum var hún spurð út í hví ekkert hefði verið aðhafst vegna kvartana sem henni bárust varðandi háttsemi Bjarna Más. Svarið var á þann veg að engin formleg kvörtun hefði borist.

Einn viðmælandi Fréttablaðsins hafði svo á orði að mögulega hefðu einhver viðvörunarljós átt að kvikna þegar óformlegar kvartanir voru orðnar fleiri en ein og fleiri en tvær. Sér í lagi í ljósi þess að innan OR er í gildi metnaðarfull og verðlaunuð jafnréttisstefna.

„Markmið starfsmannafundarins var að fara yfir þá stöðu sem er komin upp í fyrirtækinu,“ sagði Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR. Aðspurður sagði hann að munur á formlegum og óformlegum kvörtunum og meðferð þeirra verði vafalaust skoðuð í úttekt sem OR hefur óskað eftir að innri endur­skoðun Reykjavíkurborgar geri á vinnustaðamenningu hjá OR.

OR tilkynnti í gær að Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hefði óskað eftir því við stjórnarformann fyrirtækisins að stíga tímabundið til hliðar  meðan unnið væri að úttekt á vinnustaðamenningu þess. Ósk hans verður tekin fyrir á fundi stjórnarinnar sem haldinn verður á morgun.

Fyrir helgi var sagt frá því að Bjarna Má hefði var sagt upp og samhliða var tilkynnt að Þórður Ásmundsson tæki við starfinu. Sagt var frá því í kvöldfréttum RÚV að á föstudag hafi stjórnendum OR borist tilkynning um að Þórður væri sakaður um kynferðisbrot og í kjölfarið var hætt við þá breytingu og Þórður sendur í leyfi. Hið meinta brot á að hafa átt sér stað áður en Þórður hóf störf hjá ON.

Árið 2015 hlaut Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, skriflega áminningu vegna kynferðislegrar áreitni á árshátíð fyrir­tækisins sama ár. Afrit af áminningunni var sent fjölmiðlum í gær.

„Vegna fyrirspurna vil ég staðfesta að ég hlaut formlega áminningu vegna óviðeigandi kynferðislegrar áreitni á árshátíð fyrirtækisins fyrir 3 árum síðan. Ég hef iðrast þessa æ síðan. Ég fór strax í kjölfarið í áfengismeðferð og leitaði mér einnig viðeigandi aðstoðar,“ segir Ingvar í yfirlýsingu.

Fréttablaðið reyndi ítrekað að ná í Brynhildi Davíðsdóttur stjórnarformann og Sólrúnu Kristjánsdóttur starfsmannastjóra í gær en án árangurs.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×