Innlent

Þyrlan og björgunarskip send til aðstoðar göngumanni á Ströndum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leirufjörður er merktur með rauðum hring á myndinni.
Leirufjörður er merktur með rauðum hring á myndinni. Lofmyndir.is
Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarskipið Gunnar Friðriksson á Ísafirði voru ræst út á öðrum og þriðja tímanum til að koma göngumanni í Jökulfjörðum til aðstoðar. Neyðarsendir í Leirufirði í Jökulfjörðum sendi neyðarboð sem barst stjórnstöð.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að þyrlan hafi lagt af stað í útkallið frá höfuðborgarsvæðinu upp úr klukkan hálf tvö. Björgunarskipið hafi svo látið úr höfn á Ísafirði á þriðja tímanum. Reiknað er með því að þyrlan komi í Leirufjörð um klukkan 14:50 og skipið rúmum hálftíma síðar.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörgu, segir í samtali við Vísi að ekki liggi fyrir hvort göngumaðurinn sé einn á ferð og á hvaða leið hann hafi verið. Unnið sé að því að útvega þeirra upplýsinga.

Uppfært klukkan 15:09

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir göngumanninn kominn um borð í þyrluna. Göngumaðurinn hafi verið kaldur en í lagi að öðru leyti. Flogið verður með hann á Ísafjörð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×