Enski boltinn

Liverpool maður orðinn fyrirliði skoska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrew Robertson.
Andrew Robertson. Vísir/Getty
Andrew Robertson er nýr fyrirliði skoska fótboltalandsliðsins en landsliðsþjálfarinn Alex McLeish segist vera nú búinn að finna líklegan framtíðarfyrirliða skoska liðsins.

Framundan er keppni í Þjóðadeildinni þar sem Skotar eru í C-deildinni og mæta Albaníu og Ísrael. Ísland er í A-deildinni og í riðli með Belgíu og Sviss.

Alex McLeish hefur verið að leita að nýjum framtíðarfyrirliða í síðustu verkefnum eftir að Scott Brown lagði landsliðsskóna upp á hillu í fyrra.

Menn eins og James Morrison, Kieran Tierney, Charlie Mulgrew og Scott McKenna hafa allir borið fyrirliðabandið á þessum tíma en þeir heilluðu ekki Alex McLeish nægilega mikið.





Andrew Robertson er 24 ára gamall og hefur spilað 22 landsleiki en sá fyrsti kom á móti Póllandi árið 2014.

Robertson hefur staðið sig frábærlega í vinstri bakvarðarstöðunni hjá Liverpool frá því að félagið keypti hann á átta milljónir punda frá Hull City sumarið 2017.

Robertson er fastamaður í Liverpool liðinu og hefur spilað allar 360 mínúturnar í fyrstu fjórum umferðum ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili.

Robertson hefur bæði hrifið menn með vinnslu sinni og hættulegum hlaupum upp vinstri vænginn sem hafa búið til fullt af mörkum fyrir Liverpool liðið.





Fyrsta verkefni sem fyrirliði verður í vináttulandsleik á móti Belgíu á föstudaginn en Belgar eru svo að fara að spila á Laugardalsvellinum eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×