Fótbolti

David Beckham spilaði með AC Milan en skírði nýja félagið sitt Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham fékk forsetaverðlaun UEFA á dögunum.
David Beckham fékk forsetaverðlaun UEFA á dögunum. Vísir/Getty
Nýja fótboltafélagið hans David Beckham hefur fengið nafn en það verður kallað Inter Miami.

David Beckham hefur barist lengi fyrir því að stofnsetja fótboltafélag í Miami sem mun spila í MLS-deildinni í framtíðinni.

Þetta ferli hefur tekið sinn tíma og kallað á mikla pólítíska vinnu hjá þessum fyrrum fyrirliða enska fótboltalandsliðsins.

Beckham fer fyrir fjárfestingafélaginu Miami Beckham United og í dag var tilkynnt að fullt nafn félagsins væri Club Internacional de Fútbol Miami sem verður oftast stytt í Inter Miami.





David Beckham spilaði á sínum tíma með AC Milan í ítölsku deildinni en aldrei fyrir Inter Milan eða Internazionale Milan eins og félagið heitir.

„Okkur hefur dreymt í fjögur ár um fótboltafélag. Í dag kynnum við stoltir merki félasins. Komið með okkur í þetta ferðalag sem er rétt að byrja,“ sagði með myndbandinu á Twitter.

Nafnið Club Internacional de Fútbol Miami mun höfða sérstaklega til spænskumælandi fólks á Flórída.

„Við erum nýtt lið en við erum í borg með mikla sögu og það vildum við að kæmi fram í þessu nýja merki,“ sagði David Beckham við SNTV.

Inter Miami er enn að leita sér af stað fyrir heimavöllinn sinn og í nóvember munu íbúar Miami tækifæri til að kjósa um hvort Beckham og félagar fái grænt ljós að byggja nýjan völl í borginni fyrir einn milljarð dollara.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×