Innlent

Hættir í klúbbi matreiðslumeistara vegna samnings við Arnarlax

Atli Ísleifsson skrifar
Sturla Birgisson var fyrstur Íslendinga til að komast á Bocuse d'Or.
Sturla Birgisson var fyrstur Íslendinga til að komast á Bocuse d'Or. Mynd/Af Facebook-síðu Sturlu

Meistarakokkurinn Sturla Birgisson hefur sagt sig úr Klúbbi matreiðslumeistara vegna styrktarsamnings sem klúbburinn hefur gert við fiskeldisfélagið Arnarlax fyrir hönd kokkalandsliðsins. Hann segir samninginn fráleitan.



Sturla, sem er leigutaki Laxár á Ásum, greinir frá ákvörðun sinni frá Facebook og segir samninginn verstu uppákomuna í sögu klúbbsins. „Það er grátlegt til þess að hugsa að á sama tíma og mörg af helstu veitingahúsum landsins hafa tekið saman höndum til varnar umhverfi og lífríki Íslands með því að lýsa yfir að þau bjóði aðeins lax úr landeldi, hafi klúbburinn látið glepjast fyrir fé og sé að auglýsa norskan eldislax sem alinn er í opnum sjókvíum við landið.“



Veiddi eldislaxinn í Vatnsdalsá

Sturla greinir frá því að það hafi verið hann sem hafi dregið laxinn að landi í Vatnsdalsá síðastliðinn föstudag sem hafi reynst vera eldislax. Það sé ömurleg reynsla að draga slíkan fisk að landi.



„Fiskurinn tók flugu og byrjaði að synda beint til mín og eftir 30 sekúndu baráttu gafst hann upp og lét sig fljóta til mín. Ef þetta er það sem koma skal í veiðiárnar okkar getum við bara pakkað saman.



Ég vil taka það fram að ég hef ekkert við laxeldi að athuga ef það er gert með þeim hætti að það valdi ekki náttúru Íslands og villta laxinum okkar skaða. Til þess þarf eldið að fara í lokaðar kvíar, helst á landi.



Ég vil líka nefna það að ég hef bæði verið í kokkalandsliðinu og þjálfað það. Þar að auki var ég fyrsti Íslendingurinn sem komst á Bocuse d’Or sem er hin sanna heimsmeistarakeppni í matreiðslu,“ segir í færslu Sturlu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×