Fótbolti

Gylfi: Það vantaði hálft byrjunarliðið

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Gylfi að leik loknum
Gylfi að leik loknum
Gylfi Þór Sigurðsson bar fyrirliðabandið hjá Íslandi í stórtapinu gegn Sviss í dag. Hann var að vonum daufur eftir leik. Hann vildi þó ekki meina að þetta hafi verið það erfiðasta sem hann hafi gengið í gegnum á ferlinum.



„Auðvitað er þetta ekkert skemmtilegt en ég segi ekki að þetta sé það erfiðasta. Ég hef farið í gegnum ýmsa hluti á mínum ferli en þetta var gríðarlega svekkjandi og hrikaleg frammistaða,“ sagði Gylfi.



Ísland voru afar bitlausir í leiknum og viðurkennir Gylfi að það hafi verið vonleysi í leik liðsins í seinni hálfleik.



„Þegar staðan er orðin 4-0 eða 5-0, þá vitum við að við erum ekkert að fara jafna þennan leik. Ég veit ekki hvað maður á að segja. Það er erfitt að leikgreina svona leik strax.“



Það vantaði marga leikmenn í lið Íslands í dag. Aron Einar, Jóhann Berg, Alfreð og Emil voru allir frá í dag vegna meiðsla og þá hefur Hörður Björgvin verið tæpur að undanförnu. Þeir voru í byrjunarliði Íslands á HM í sumar og segir Gylfi að íslenska liðið megi ekki við slíkum skakkaföllum.



„Það vantaði hálft byrjunarliðið. Við verðum bara að horfast í augu við það að við megum ekkert við því að það vanti 5-6 leikmenn sem byrja. En þrátt fyrir það var frammistaðan mjög léleg, mjög dauf. Lítið að gerast fram á við. Við spiluðum boltanum mjög illa, héldum honum illa. Kannski bara óþarfa mistök á bolta. Svo auðvitað varnarleikurinn hjá öllu liðinu mjög slappur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×