Fótbolti

Kane: Dómarinn klúðraði þessu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/getty
Harry Kane sagði dómarann Danny Makkelie hafa bognað undir pressu í lok leiks Englands og Spánar í Þjóðadeildinni í kvöld.

Danny Welbeck skoraði jöfnunarmark fyrir England í uppbótartíma en var dæmdur brotlegur í teignum. Endursýningar sýndu David de Gea detta á Welbeck sem virtist lítið gera af sér annað en að standa fyrir de Gea.

„100 prósent,“ var svar Kane þegar hann var spurður hvort markið hafi átt að standa eftir leikinn.

„Á stóru augnablikunum þá þarf dómarinn að standa uppréttur en hann klúðraði þessu. Það þarf sterkan dómara sem tekur ekki rangar ákvarðanir undir pressu.“

„Danny Welbeck stóð þarna. De Gea hoppaði, náði boltanum en datt á Danny. Ekkert brot eða neitt og hann missti bara boltann.“

Spánverjar unnu því leikinn með tveimur mörkum gegn einu. Englendingar sköpuðu sér afar lítið í seinni hálfleik fyrr en undir lokin þegar þeir reyndu að finna jöfnunarmarkið. Kane, sem er fyrirliði enska landsliðsins, sagðist þó vera ánægður með frammistöðuna.

„Þetta var gott próf gegn liði sem heldur boltanum vel. Þetta var erfitt en við áttum góða kafla og bjuggum til betri færi en þeir.“

„Við reyndum að pressa þá og spila með mikilli ákefð. Það er ýmislegt sem við getum lært af þessu en við getum borið höfuðið hátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×