Erlent

Dularfulla konan sem hringdi dyrabjöllum að næturlagi fundin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem fór eins og eldur í sinu um vefinn.
Skjáskot úr myndbandinu sem fór eins og eldur í sinu um vefinn. Skjáskot/FACEBOOK
Dularfulla konan sem sást hringja dyrabjöllum að næturlagi með ólar um úlnliðina er fundin. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu í Texas fannst kærasti hennar látinn í vikunni eftir að hafa framið sjálfsvíg.

Lögregla óskaði eftir upplýsingum um konuna á sunnudag en ferðir hennar aðfaranótt 24. ágúst síðastliðinn náðust á öryggismyndavél. Í myndbandinu, sem lögregla í Montgomery-sýslu í Texas birti á Facebook-síðu sinni, sést konan hringja dyrabjöllu viðkomandi húss, með ólar um úlnliðina og berfætt í stuttermabol einum fata.

Hún sást svo hringja dyrabjöllum annarra húsa á svæðinu en lét sig svo hverfa. Málið vakti mikla athygli, og jafnvel óhug þar eð ólarnar um úlnliði konunnar þóttu benda til þess að eitthvað misjafnt hefði átt sér stað.

Nú er konan, sem er 32 ára, hins vegar fundin heil á húfi en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu dvelur hún hjá fjölskyldu sinni. Lögregla segir konuna vera þolanda heimilisofbeldis og verður hún því ekki nafngreind að svo stöddu. Þá fannst kærasti hennar látinn í vikunni eftir að hafa framið sjálfsvíg 49 ára gamall.

Hér að neðan má sjá myndband af blaðamannafundi lögreglu í Montgomery-sýslu vegna málsins. Þar fyrir neðan má svo sjá myndbandið sem náðist af konunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×