Fótbolti

Ákall frá Hallberu og íslensku stelpunum: „Okkar draumur að fylla völlinn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallbera Guðný Gísladóttir er ein af reynsluboltum íslenska liðsins.
Hallbera Guðný Gísladóttir er ein af reynsluboltum íslenska liðsins. Mynd/Fésbók/Skjámynd
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu spilar einn sinn mikilvægasta leik til þessa, laugardaginn 1. september næstkomandi, þegar stelpurnar mæta Þýskalandi í undankeppni HM.

Í boði er sæti á HM í fyrsta sinn en stelpurnar okkar hafa þrisvar komist á Evrópumótið en hefur aldrei tekist að tryggja sig inn á HM.

Íslenska liðið er á toppnum í riðlinum, með einu stigi meira en Þýskaland, og tryggir sér efsta sætið og sæti á HM með sigri.

Landsliðskonan Hallbera Guðný Gísladóttir kemur fram fyrir liðið á fésbókarsíðu Knattspyrnusambands og kallar eftir góðum stuðningi í þessum mikilvæga leik.

„Það er ekkert sem jafnast á við það að vera inná vellinum og heyra stuðninginn úr stúkunni. Okkar draumur er að fylla völlinn. Gerum þetta saman,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir eins og sjá má hér fyrir neðan.



Íslenska kvennalandsliðið hefur oft fengið góða mætingu á leiki sína en þær hafa aldrei náð að fylla völlinn. Nú er að sjá hvort þeim takist það að þessu sinni en það er full ástæða til að styðja vel við bakið á þeim nú þegar það er svona mikið undir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×