Erlent

Flytja alla af egypsku hóteli eftir dauðsföll

Stefán Ó. Jónsson skrifar
John og Susan Cooper létust á hótelinu á dögunum.
John og Susan Cooper létust á hótelinu á dögunum. facebook
Bókunarrisinn Thomas Cook hefur ákveðið að flytja alla viðskiptavini sína af egypsku hóteli eftir dularfullt andlát bresks pars.

Þau John Cooper og eiginkona hans Susan, sem bæði voru á sjötugsaldri, létust á hótelinu Steigenberger Aqua Magic í borginni Hurghada, sem stendur við Rauðahafið.

Bókunarþjónustan sendi frá sér tilkynningu vegna dauðsfallanna þar sem segir að mörgum spurningum sé enn ósvarað um tildrög þeirra. Þar að auki hafi fyrirtækið fengið fleiri tilkynningar frá viðskiptavinum um óvænt og heiftarleg veikindi. Þeim muni því bjóðast gisting annars staðar eða flug aftur til síns heima.

Alls er um að ræða 301 viðskiptavin sem ýmist hafði verið á hótelinu eða átti bókaða gistingu þar á næstunni. Thomas Cook segir að málið sé til rannsóknar af þarlendum yfirvöldum og hefur fyrirtækið heitið fullum samstarfsvilja sínum við rannsóknina.

Í tilkynningu Thomas Cook segir jafnframt að málið hafi komið fyrirtækinu í opna skjöldu - ekki síst vegna þess að hótelið sem um ræðir hafi flogið í gegnum reglubundið eftirlit í nýliðnum júlímánuði.

Thomas Cook er stærsta bókunarþjónusta Bretlandseyja og er talið að næstum 2000 manns séu í Hurghada á vegum fyrirtækisins þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×