Innlent

60 ára afmælisganga Leikfélags Selfoss um fjöll og firnindi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Í göngunum sem er fjórar verða settir upp leikþættir, ljóð lesin, dansað og farið með gamanmál.
Í göngunum sem er fjórar verða settir upp leikþættir, ljóð lesin, dansað og farið með gamanmál. Stöð 2/Magnús Hlynur.
Félagar í Leikfélagi Selfoss bjóða nú öllum áhugasömum að ganga með sér um fjöll og firnindi í tilefni af 60 ára afmæli félagsins. Í göngunum sem er fjórar verða settir upp leikþættir, ljóð lesin, dansað og farið með gamanmál.

Leikfélag Selfoss er með starfsemi sína í litla leikhúsinu við Sigtún þar sem öflug leiklistarstarfsemi fer fram. Nú er það 60 ára afmælið en í tilefni af því verður boðið upp á fjórar gönguferðir, sú fyrsta var í dag. Ganga tvö verður laugardaginn 18. ágúst, þriðja gangan verður sunnudaginn 19. ágúst og lokagangan verður laugardaginn 1. september en þá verður búið að ganga 60 kílómetra. Verkefnið kallast “ Ég held ég gangi heim - Ævintýri á gönguför”.

„Þetta verður svona með ljóðrænu, leikrænu og músíkölsku sniði, og svo verður dansað líka“, segir Gústav Þór Stolzenwald leikari og göngustjóri. Gengið verður úr Mosfellsdalnum yfir í litla leikhúsið á Selfossi yfir fjöll og firnindi. „Við ætlum að fara yfir Reykjaborg, Þverfell, Litla fell, Húsmúla, síðan munum við fara niður Reykjadal og endum á að fara yfir Ingólfsfjalli og Þinghól og komum í litla leikhúsið 1. september“, bætir Gústaf Þór við.

Í öllum göngunum verður sungið, boðið verður upp á upplestur, ljóð flutt og það á líka að kyrja og dansa. Allir eru velkomnir í göngurnar en allar nánari upplýsingar er að finna á Facebook með því að skrifa inn í leitarstrenginn „Leikfélag Selfoss“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×