Fótbolti

Sumarfrí Ronaldo á Ibiza endaði á bráðamóttöku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldo setti fótboltaskóna upp á hillu fyrir sjö árum síðan.
Ronaldo setti fótboltaskóna upp á hillu fyrir sjö árum síðan. vísir/getty
Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Ronaldo er á batavegi eftir að hafa greinst með alvarlega lungnabólgu fyrir helgi.  

Ronaldo var staddur í sumarfríi á eyjunni Ibiza á Miðjarðarhafi og var fluttur í skyndi á sjúkrahús á föstudaginn þar sem hann var meðhöndlaður á bráðamóttöku spítalans.

Fyrst fréttist af veikindum Ronaldo í gærkvöldi og aðdáendur Brasilíumannsins höfðu margir miklar áhyggjur af honum.

Ronaldo fór sjálfur inn á Twitter eftir að hættan var liðin hjá og sagði að hann yrði útskrifaður í dag. „Ég fékk slæma flensu á Ibiza og var lagður inn á föstudaginn en fæ að fara heim á morgun,“ skrifaði Ronaldo.





Ronaldo er aðeins 41 árs gamall en hann var á sínum tíma besti fótboltamaður heims þar sem hann lék með stórliðum á borð við Real Madrid, Barcelona, Internazionale og AC Milan.

Ronaldo skoraði 62 mörk í 98 landsleikjum fyrir Brasilíu þar af fimmtán þeirra á HM og tvö þeirra í úrslitaleik HM 2002 þar sem Brasilía vann 2-0 sigur á Þýskalandi.

Ronaldo á hús á Ibiza en hann lagði fótboltaskóna á hilluna fyrir sjö árum síðan. Síðustu tvö árin spilaði hann með liði Corinthians í Brasilíu.

Ronaldo fékk tvisvar sinnum Gullboltann, sem besti knattspyrnumaður heims, fyrst árið 1997 og svo aftur árið 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×