Skoðun

Kvartarar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stærstan hluta stuttrar starfsævi hef ég starfað í blaðamennsku og mætti því segja að ég væri stálpað blaðabarn. Meirihluti starfsins felst í því að vinna fréttir en nokkuð stór hluti tímans, þó æ minni eftir tilkomu athugasemdakerfa vefmiðlanna, fer í að svara athugasemdum þeirra sem hringja inn á ritstjórnina.

Sem dæmi um slíka símavini má nefna hundaeigendur sem alltaf eru tilbúnir við telefóninn. Hommahatarar og rasistar eru líka algengir. Á dögunum hringdi inn maður sem var hvort tveggja. Hann var foj yfir því að það væri í skoðun að taka á móti samkynhneigðum flóttamönnum frá Afríku og sérstaklega brjálaður yfir því að þessir drulludelar væru á leið hingað til að smita hinn hreina, íslenska kynstofn af alnæmi. Innhringjandinn var að sjálfsögðu beðinn um að stinga þessari athugasemd aftur þangað sem hún var upprunnin. Það er á staðinn þar sem sólin skín aldrei.

Reglulega hringir líka inn fólk og „leiðrengir“ málfar. Fjölmargir fettu fingur út í það á dögunum að það stæði samrýnd á forsíðu blaðsins. Mér bárust síðan flestar athugasemdir við skrif mín þegar í fyrirsögn fréttar stóð „berja augum“. Þau símtöl enda flest á því að fólkið ætlar næst að hringja í Árnastofnun til að hringja síðan aftur í ritstjórnina. Sjaldnast verður af síðara símtalinu.

Uppáhaldið mitt var konan sem hringdi inn og tilkynnti það, án þess að kynna sig, að hún ætti afmæli á morgun og að það ætti alls ekki að skrifa um það. Síðan skellti hún á. Enn þann dag í dag kann ég engin deili á henni.

Símavinirnir gefa vinnudeginum lit. Megi þeir hringja sem oftast.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×