Enski boltinn

Tveir stungnir fyrir leik Rangers í gær

Anton Ingi Leifsson skrifar
Steven Gerrard er þjálfari Rangers. Hann tók við liðinu í sumar.
Steven Gerrard er þjálfari Rangers. Hann tók við liðinu í sumar. vísir/getty
Lögreglan í Skotlandi hefur staðfest að tveir voru stungnir fyrir leik Rangers og Osijek í Evrópudeildinni í gær.

Liðin mættust í síðari leik liðanna á Ibrox leikvanginum í Skotlandi í gær en Rangers vann fyrri leikinn með einu marki gegn engu þar sem mikill hiti var í leiknum.

Fyrir leik í gær sauð allt upp úr og nærri leikvanginum slógust stuðningsmenn liðanna. Slagsmálin rötuðu síðan á samfélagsmiðla og gengu myndbönd á milli manna í gær.

Tveir voru stungnir í átökunum í gær; 24 ára og 40 ára karlmenn urðu fyrir barðinu en þeir voru fluttir á sjúkrahús. Sá yngri er útskrifaður en beðið er eftir að útskrifa þann eldri.

Lögreglan í Skotlandi leitar nú að vitnum að atvikinu en talið er að margir hafi orðið vitni af slagsmálunum ógurlegu þar sem allt sauð upp úr.

Leikurinn sjálfur endaði með 1-1 jafntefli og Rangers er því komið áfram í þriðju umferð forkeppninnar. Steven Gerrard og lærisveinar hans mæta Kassim Doumbia og félögum í Maribor í þriðju umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×