Innlent

Hafa opnað íþróttahúsið í Eyjum vegna veðurs

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Slæmt veður gæti sett strik í reikninginn á Þjóðhátíð í kvöld en gul viðvörun er í gildi sunnan til á landinu. Bætt hefur nokkuð í vindinn í Herjólfsdal í dag og hefur íþróttahúsið í Eyjum verið opnað þar sem hátíðargestir geta leitað skjóls ef þarf. Talsmenn Þjóðhátíðarnefndar eru þó nokkuð bjartsýnir og eiga ekki von á öðru en að gestir skemmti sér í brekkusöngnum í kvöld.

Helgin að mestu farið vel fram

Nokkur erill hefur verið hjá lögreglu víða um land um helgina en hátíðarhöld hafa þó almennt farið vel fram. Umferðin hefur gengið að mestu afar vel í dag samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni víða um land. Engar tilkynningar um kynferðisafbrot hafa borist embættum lögreglunnar á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra, Austurlandi og á Suðurlandi til þessa.

Ekki hafa fengist upplýsingar frá neyðarmóttöku Landspítalans vegna kynferðisofbeldis í dag og lögreglan í Vestmannaeyjum mun ekki veita upplýsingar um slík mál að svo stöddu. Einn var þó handtekinn í Herjólfsdal fyrir kynferðislega áreitni en alls gistu fimm fangageymslur í Vestmannaeyjum í nótt. Á Akureyri gistu þrír fangageymslur, þar af tveir grunaðir um líkamsárás. 

Nokkur fíkniefnamál hafa komið upp í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi og hefur verið nokkuð um ölvunar- og fíkniefnaakstur. Lögregla beinir því til ökumanna að setjast ekki undir stýri fyrr en þeir eru orðnir allsgáðir. Víða er hægt að fá að blása áður en lagt er af stað, meðal annars í Landeyjahöfn. Á fjórða tug fíkniefnamála hafa komið upp á Þjóðhátíð sem er svipað og á sama tíma í fyrra. Búist er við að um 15 þúsund manns verði í brekkusöngnum í kvöld en veðurspá gerir ráð fyrir miklu hvassviðri í Vestmannaeyjum og er viðbragðsáætlun til taks.
 


Tengdar fréttir

Færri fíkniefnabrot á Þjóðhátíð

Enginn hefur leitað á neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis um helgina til þessa og færri fíkniefnamál hafa komið upp á Þjóðhátíð í Eyjum í ár en í fyrra. Umferðin um verslunarmannahelgina hefur almennt gengið vel.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.