Erlent

Höfnuðu frumvarpi um þungunarrof

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Öldungadeild argentínska þingsins hafnaði í morgun frumvarpi sem hefði heimilað þungunarrof í landinu fram að 14 viku meðgöngunnar.

Heitar umræður sköpuðust um frumvarpið á þinginu og eftir maraþonfund greiddu 38 þingmenn atkvæði gegn því en 31 með. Niðurstaðan hefur í för með sér að ekki má taka málið upp að nýju á argentínska þinginu fyrr en að einu ári liðnu.

Sem stendur geta argentínskar konur aðeins farið í fóstureyðingu eftir nauðgun eða ef meðgangan er talin vera þeim lífshættuleg. Atkvæðagreiðslan hefur heltekið argentínsk samfélag á síðustu vikum og safnaðist mikill fjöldi saman við þinghúsið þegar atkvæðagreiðslan fór fram.

Stuðningsmenn frumvarpsins hafa árum saman reynt að fá sambærileg lög innleidd í Argentínu. Snurða hljóp þó á þráðinn í baráttu þeirra þegar forseti landsins, Mauricio Marri - sem er sjálfur mótfallinn fóstureyðingum, ákvað að láta öldungadeildina hafa lokaorðið um málið.

Neðri deild þingsins samþykkti frumvarpið með naumum meirihlauta í júní síðastliðnum. Umræða um atkvæðagreiðsluna stóð þá yfir í rúmlega sólarhring og mörg hundruð þúsund mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×