Enski boltinn

52 ár í dag síðan að fótboltinn „kom síðast heim“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bobby Moore og félagar fagna heimsmeistaratitlinum fyrr 52 árum.
Bobby Moore og félagar fagna heimsmeistaratitlinum fyrr 52 árum. Vísir/Getty

Englendingar urðu heimsmeistarar í fyrsta og eina skiptið á þessum degi árið 1966.

Englendingar töluðu um að fótboltinn væri að koma heim þegar sigurganga enska landsliðsins stóð yfir á HM í Rússlandi. Ævintýrið endaði hinsvegar í undanúrslitunum og enska liðið tapaði síðustu tveimur leikjum sínum í keppninni.

Fótboltinn kom því ekki heim og hefur ekki gert það síðan nákvæmlega fyrir 52 árum síðan.


30. júlí 1966 varð England heimsmeistari í fótbolta eftir 4-2 sigur á Vestur-Þýskalandi í framlengdum úrslitaleik. Keppnin fór fram í Englandi og úrslitaleikurinn var spilaður fyrir framan rúmlega 96 þúsund manns á Wembley.

Geoff Hurst skoraði þrennu í leiknum þar á meðal frægt mark í slána og niður. Menn hafa deilt um það síðan þá hvort að boltinn hafi raunverulega farið inn fyrir marklínuna.

Fjórða markið skoraði síðan Martin Peters og kom þá enska liðinu í 2-1 tólf mínútum fyrir leikslok. Þjóðverjar jöfnuðu hinsvegar á 89. mínútu og tryggðu sér framlengingu.

Hurst skoraði tvívegis í framlengingunni, á 101. og 120. mínútu, og tryggði Englandi heimsmeistaratitilinn.

Það var síðan fyrirliðinn Bobby Moore sem lyfti Jules Rimet bikarnum í leikslok við mikinn fögnuð heimamanna.

Oft hefur verið talað um þennan titil sem titil West Ham liðsins því þeir Bobby Moore (fyrirliði), Geoff Hurst (þrjú mörk) og Martin Peters (eitt mark) voru þarna allt leikmenn West Ham. Moore var 25 ára, Hurst 24 ára og Peters 22 ára.

Enginn annar West Ham leikmaður var í hópnum hjá Englandi á þessu heimsmeistaramóti en það var Manchester United maðurinn Bobby Charlton sem tryggði enska liðinu sæti í úrslitaleiknum með því að skora bæði mörkin í undanúrslitaleiknum á móti Portúgal. Geoff Hurst skoraði aftur á móti sigurmarkið á móti Argentínu í átta liða úrslitunum.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.