Innlent

Hressilegar dembur í höfuðborginni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það verður blautt í Borgartúni í dag.
Það verður blautt í Borgartúni í dag. VÍSIR/ARNÞÓR

Veðurstofan gerir ráð fyrir því að austlægar áttir verði ríkjandi á landinu dag. Þeim munu fylgja skúrir sunnan- og vestanlands og búast má við „hressilegum dembum“ síðdegis á suðvesturhorninu. Hins vegar verður bjartara yfir Norðurlandi og verður þar þurrt að mestu.

Þá er von á enn einni lægðarbólunni í kvöld, ef marka má spákort Veðurstofunnar. Hún mun koma að landinu úr austri og nær „rétt að sleikja“ norðaustur- og norðurströndina með rigningu fram á morgundaginn. Henni munu þó fylgja töluvert meiri skúrir á Suður- og Austurlandi, einkum sídegis á morgun.

Lægðin hreiðrar um sig norður af landinu á morgun og mun beina vestlægum vindum yfir landið. „Hún tekur síðan á rás norður á bóginn á fimmtudag en þá verður hæglætisveður með skúrum í flestum landshlutum, einkum síðdegis og svipað á föstudag og laugardag,“ eins og það er orðað.

Ný lægð myndast svo á Grænlandshafi á fimmtudag sem þokast nær landi á föstudag. Hún grynnist þó á leiðinni og því ekki líkleg til stórræða en gæti samt komið með rigningu syðst á landinu seint á föstudag og við austurströndina á laugardag. Áfram verður milt veður næstu daga.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Norðvestan og vestan 3-10 m/s, hvassast nyrst og syðst. Rigning við N-ströndina, síðdegisskúrir S- og A-lands, en annars úrkomulítið. Hiti 8 til 18 stig, svalast á N- og NV-landi.

Á fimmtudag:
Suðvestlæg átt, 3-8 og skúrir, einkum síðdegis. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast A-lands.

Á föstudag:
Hæg suðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum A-til og stöku síðdegisskúrir, dálítil rigning við SV-ströndina, en annars skýjað og úrkomulítið. Hiti breytist lítið.

Á laugardag, sunnudag og mánudag (frídagur verslunarmanna):
Suðvestlæg átt og yfirleitt skýjað en úrkomulítið V-til, en bjart með köflum fyrir austan. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast A-lands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.