Innlent

Hressilegar dembur í höfuðborginni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það verður blautt í Borgartúni í dag.
Það verður blautt í Borgartúni í dag. VÍSIR/ARNÞÓR
Veðurstofan gerir ráð fyrir því að austlægar áttir verði ríkjandi á landinu dag. Þeim munu fylgja skúrir sunnan- og vestanlands og búast má við „hressilegum dembum“ síðdegis á suðvesturhorninu. Hins vegar verður bjartara yfir Norðurlandi og verður þar þurrt að mestu.

Þá er von á enn einni lægðarbólunni í kvöld, ef marka má spákort Veðurstofunnar. Hún mun koma að landinu úr austri og nær „rétt að sleikja“ norðaustur- og norðurströndina með rigningu fram á morgundaginn. Henni munu þó fylgja töluvert meiri skúrir á Suður- og Austurlandi, einkum sídegis á morgun.

Lægðin hreiðrar um sig norður af landinu á morgun og mun beina vestlægum vindum yfir landið. „Hún tekur síðan á rás norður á bóginn á fimmtudag en þá verður hæglætisveður með skúrum í flestum landshlutum, einkum síðdegis og svipað á föstudag og laugardag,“ eins og það er orðað.

Ný lægð myndast svo á Grænlandshafi á fimmtudag sem þokast nær landi á föstudag. Hún grynnist þó á leiðinni og því ekki líkleg til stórræða en gæti samt komið með rigningu syðst á landinu seint á föstudag og við austurströndina á laugardag. Áfram verður milt veður næstu daga.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Norðvestan og vestan 3-10 m/s, hvassast nyrst og syðst. Rigning við N-ströndina, síðdegisskúrir S- og A-lands, en annars úrkomulítið. Hiti 8 til 18 stig, svalast á N- og NV-landi.

Á fimmtudag:

Suðvestlæg átt, 3-8 og skúrir, einkum síðdegis. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast A-lands.

Á föstudag:

Hæg suðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum A-til og stöku síðdegisskúrir, dálítil rigning við SV-ströndina, en annars skýjað og úrkomulítið. Hiti breytist lítið.

Á laugardag, sunnudag og mánudag (frídagur verslunarmanna):

Suðvestlæg átt og yfirleitt skýjað en úrkomulítið V-til, en bjart með köflum fyrir austan. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast A-lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×