Innlent

Fimmtán ára lenti í pressugámi við ólöglega vinnu hjá Gámaþjónustu Norðurlands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á mynd sést pressugámur á borð við þann sem hinn 15 ára starfsmaðurinn lenti í. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Á mynd sést pressugámur á borð við þann sem hinn 15 ára starfsmaðurinn lenti í. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Anton Brink
Vinnueftirlitið hefur stöðvað vinnu barna og unglinga við gámasvæði fyrirtækisins Gámaþjónustu Norðurlands ehf. 15 ára starfsmaður hafði þar lent í vinnuslysi er hann lenti í pressugámi við vinnu, að því er fram kemur í frétt á vef Vinnueftirlitsins.

Við eftirlitsheimsókn Vinnueftirlitsins í Gámaþjónustu Norðurlands ehf að gámasvæði við Réttarhvamm á Akureyri kom í ljós að aðbúnaðir, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur. Þá hafi börn og unglingar undir 18 ára aldri starfað á gámasvæðinu.

Öll vinna barna og unglinga við svokallaða pressugáma var bönnuð í kjölfar heimsóknarinnar auk allrar vinnu þessa aldurshóps við önnur hættuleg tæki og verkefni.

Þá var vinna þeirra við hættuleg efni, við að handleika þungar byrðar og öll vinna án eftirlits fullorðinna starfsmanna bönnuð að auki, með vísan til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Ákvörðun Vinnueftirlitsins vegna málsins má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×