Enski boltinn

Markahæsti leikmaður Hollands kominn til Brighton

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Alireza Jahanbakhsh
Alireza Jahanbakhsh vísir/getty
Íraninn Alireza Jahanbakhsh er genginn til liðs við enska úrvalsdeildarliðið Brighton fyrir tæpar 20 milljónir punda og varð þar með dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Hann kemur til Brighton frá AZ Alkmaar í Hollandi en hann var markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 21 mark í 33 leikjum. Að auki lagði hann upp 12 mörk en AZ hafnaði í 3.sæti hollensku deildarinnar á síðustu leiktíð.

Jahanbakhsh varð þar með fyrsti Asíumaðurinn til að vera markahæstur í efstu deild í Evrópu.

Jahanbakhsh er 24 ára gamall og hefur leikið í Hollandi undanfarin fimm ár en hann var á mála hjá NEC Nijmegen í tvö ár áður en hann hélt til AZ.

Hann lék alla leiki Íran á HM í Rússlandi þar sem Íranir voru í riðli með Portúgal, Spáni og Marokkó og komust ekki áfram í 16-liða úrslit.

Brighton hefur leik í ensku úrvalsdeildinni laugardaginn 11.ágúst næstkomandi þegar liðið heimsækir Watford.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×