Enski boltinn

Shaw svarar gagnrýnisröddum: „Er ekki feitur bara byggður eins og Rooney“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rooney og Shaw á æfingu með Manchester United
Rooney og Shaw á æfingu með Manchester United Vísir/Getty
Bakvörðurinn Luke Shaw hefur átt erfitt uppdráttar hjá Manchester United, hann hefur glímt við erfið meiðsli og virðist ekki í náðinni hjá knattspyrnustjóranum Jose Mourinho. Hann hefur stundum verið gagnrýndur fyrir líkamsbyggingu sína en svaraði þeim gagnrýnisröddum.

Shaw er staddur í Bandaríkjunum í æfingaferð með liði United. Þar hitti hann á blaðamenn og kom upp umræða um form hans.

„Maður verður bara að taka þessari gagnrýni, þú færð hana alltaf hvort sem hún er neikvæð eða jákvæð, en hún á að gera mann sterkari. Ég hef verið nokkuð óheppinn og bæði átt hæðir og lægðir undir mismunandi stjórum en ég hef aldrei verið í lélegu formi,“ sagði Shaw. Englendingurinn fór til Dubai og æfði áður en lið United kom saman á undirbúningstímabilinu.

Shaw hefur byrjað alla þrjá vináttuleiki United í Bandaríkjunum til þessa. Hann er á síðasta ári samnings síns hjá United.

Á sama tíma fyrir fjórum árum, árið 2014 í æfingaferð í Bandaríkjunum, sagði þáverandi stjóri United, Louis van Gaal, að Shaw væri of þungur og síðan þá hefur sú gagnrýni alltaf verið viðloðandi.

„Fólk má segja að ég sé feitur en ég þekki líkamann minn. Ég lít út fyrir að vera stór því ég er stórvaxinn, ég er með líkamsbyggingu eins og Wayne Rooney.“

„Ég vil vinna mér inn nýjan samning. Ég ætla að berjast fyrir sæti mínu í liðinu á þessu tímabili,“ sagði Luke Shaw.


Tengdar fréttir

Hodgson hefur áhyggjur af líkamsástandi Shaw

Líkt og Louis Van Gaal hefur Roy Hodgson áhyggjur af því í hversu lélegu formi Luke Shaw er í. Hann er hinsvegar viss um að það muni lagast með aldrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×