Enski boltinn

Klaasen farinn frá Everton | Hríðlækkaði í verði á einu ári

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Afar misheppnuð dvöl á enda
Afar misheppnuð dvöl á enda vísir/getty
Hollenski miðjumaðurinn Davy Klaasen er farinn frá enska úrvalsdeildarliðinu Everton eftir aðeins eins árs dvöl sem var vægast sagt misheppnuð en hann gerði fimm ára samning við enska félagið fyrir ári síðan.

Klaasen er búinn að semja við þýska úrvalsdeildarliðið Werder Bremen og borgar þýska félagið um 12 milljónir punda fyrir kappann.

Everton borgaði 24 milljónir punda fyrir Klaasen þegar hann var keyptur frá Ajax síðasta sumar sem gerir hann að sjöunda dýrasta leikmanni í sögu Everton. Hans verður varla lengi minnst á Goodison Park því hann kom lítið við sögu á sínu eina tímabili hjá liðinu.

Klaasen byrjaði aðeins þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni en kom við sögu í alls sextán leikjum Everton í öllum keppnum, án þess að skora eða leggja upp mark en Klaasen spilar vanalega sem sóknarsinnaður miðjumaður.

Þessi 25 ára gamli leikmaður var fyrirliði Ajax áður en hann gekk í raðir Everton og á 16 A-landsleiki að baki fyrir Hollendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×