Íslenski boltinn

Ondo vill að KSÍ skoði rauða spjaldið: „Í mínum bókum eru þetta fordómar“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Selfyssingar eru í fallsæti í Inkasso deildinni. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Selfyssingar eru í fallsæti í Inkasso deildinni. Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/hanna
Gilles M'bang Ondo, sóknarmaður Selfoss í Inkassodeildinni í fótbolta, fékk rautt spjald í leik ÍR og Selfoss á fimmtudagskvöld. Hann ýjaði að því að hann hefði fengið spjaldið vegna kynþáttafordóma.

Undir lok leiksins, í stöðunni 1-2 fyrir Selfoss, fékk Ondo beint rautt spjald eftir viðskipti við leikmenn ÍR út við hliðarlínu.

„Ondo með glórulaus tilþrif, liggur og hoppar upp með takkana á undan sér í Axel. Hárrétt ákvörðun,“ sagði í textalýsingu Fótbolta.net um leikinn.

Eftir að Ondo fór af velli þá fékk Selfoss á sig tvö mörk í uppbótartíma og ÍR fór með 3-2 sigur.

„Í myndbandinu hér að neðan má sjá þegar leikmaður ÍR skýtur tvisvar í rifbeinin á mér og einu sinni í höfuðið eftir að ég féll í jörðina,“ sagði Ondo við Fótbolta.net og vísar í myndband sem finna má hér.

„Það er hægt að sjá að línuvörðurinn dæmir brotið á mig en það var barið á mér! ÍR-ingarnir fengu gult en ég fékk rautt. Í mínum bókum eru þetta fordómar, eða þá að dómarinn er mjög slakur.“

„Ég biðla til KSÍ að skoða myndbandið vel,“ sagði Ondo í viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×