Tónlist

Króli gáttaður á „blackface“ gervi hljómsveitar á Húsavík

Bergþór Másson skrifar
Rapparinn Króli á opnunarviðburðurði Barnamenningarhátíðar 2018
Rapparinn Króli á opnunarviðburðurði Barnamenningarhátíðar 2018 Sigtryggur Ari
Rapparinn Króli var staddur á Mærudögum í Húsavík þegar hann sá hljómsveitina The Heffners klædda „blackface“ gervi. Króli segist hafa reynt að benda þeim kurteisislega á að þeir hefðu í frammi kynþáttafordóma með framferði sínu. Króli segir að hljómsveitin hafi ekki tekið umvöndunum sínum alvarlega. Í stað þess að líta í eigin barm hafi hljómsveitarmeðlimirnir hæðst að honum. Króli segir frá þessu í Facebook færslu sinni.

Eftirfarandi fékk Króli að heyra frá hljómsveitarmeðlimum þegar hann benti þeim á að það að vera í „blackface“ gervi sé ekki í lagi:

„Þau væru að heiðra ekki að móðga,“ „þetta væri ekkert niðrandi,“ „það er einn blökkumaður í hljómsveitinni og hann gúdderar þetta“ og „að Robert Downey Jr. hafi líka gert þetta og fólki fannst það í lagi.“

Hljómsveitarmeðlimirnir sögðu einnig við Króla að „fólkið að sunnan mætti alveg tala eitthvað á netinu, það skipti þau engu máli, þau myndu bara halda áfram.“

Króli segir notkun hljómsveitarinnar á „blackface“ gervi vera úr takt við nútímann og að hún minni sig á „fáránlega taktlausa“ steggjun sem átti sér stað í Druslugöngunni í gær.

„Ég vil ekki hljóma jafn þröngsýnn og þessi blessaða hljómsveit og segja að allt þetta bæjarfélag sé blint því þau eru það pottþétt ekki en þessir venjulega Húsvíkingar sem stóðu hnarryestir eftir að ég reyndi ítrekað, aftur og aftur að segja þeim og vara þau við að það væru að skandala yfir sig með þessu, svöruðu mér í hæðnistón og flissuðu. Í frekar flottu bæjarfélagi eins og þessu er greinilega létt að „normilísaera“ eitthvað sem er bara alls ekki í lagi. Það eru börn sem alast upp við þetta á Húsavík og sjá The Heffners spila á Mærudögum ár eftir ár,“ segir Króli í Facebook færslu sinni.

Að lokum segist Króli vera gáttaður yfir því að þetta sé að gerast á Íslandi árið 2018. Hann endar færslu sína með því að biðja landsmenn vinsamlegast um að láta svona hegðun ekki viðgangast. Að neðan má sjá Facebook færslu Króla um málið.

Hvorki náðist í skipuleggjendur Mærudaga né meðlimi hljómsveitarinnar The Heffners við gerð fréttarinnar. 




Tengdar fréttir

JóiPé og Króli „handteknir“ á Blönduósi

Rapparinn Emmsjé Gauti heldur áfram hringferð sinni um landið þar sem hann spilar 13 tónleika á 13 dögum. Samhliða því koma út daglegir netþættir frá túrnum en neðst í fréttinni má sjá áttunda þáttinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×