Skoðun

Gígabæti af veðurfréttum

Haukur Örn Birgisson skrifar
Í þessum skrifuðu orðum er ég á leið frá Íslandi, sit um borð í flugvél á leiðinni í hlýjara loftslag. Í allt „sumar“ hef ég, eins og flestir Íslendingar, notið hlýjunnar innandyra og horft á rigninguna og rokið þjóta fram hjá stofuglugganum. Orðið þunglyndari með hverjum deginum sem líður, lesandi fréttir af hverju óveðursmetinu á eftir öðru sem slegið er. Það þarf ekki að miða við neina höfðatölu þegar kemur að heimsmetum Íslendinga í veðri.

Á sama tíma hef ég ekki komist hjá því að horfa á vini og ættingja, sem flúið hafa land um skamma hríð, birta myndir af sér á samfélagsmiðlunum á sundfötunum. Oftar en ekki fylgir það sögunni hvert hitastigið er þegar myndin var tekin. Hvað er að þessu fólki?

Þetta hlýtur að vera eitthvert séríslenskt fyrirbæri. Að þurfa stanslaust að birta myndir af skýjalausum himni eða sólarströnd, með hitatöluna krotaða á skjáinn! Sumir ganga svo langt að senda manni skjáskot af veðurspánni næstu daga. Það á að læsa þetta fólk inni.

Íslendingar sem búa erlendis eru þó verstir. Þeir fá einhverja furðulega sælutilfinningu við það að núa vinum sínum á Íslandi því um nasir og monta sig af veðrinu þar sem þeir búa. Svo líður þessu fólki jafnvel enn betur ef veðrið á Íslandi er sérstaklega slæmt á sama tíma. Þá espist það upp og sendir heilu gígabætin af vídeóum sem enginn vill horfa á. Hversu annarlegar hvatir þarf maður eiginlega að hafa ef það veitir manni aukna gleði þegar lægðin yfir landinu er sérstaklega djúp og ástvinir manns nenna ekki út úr húsi?

Ætli ég sé samt ekki bara búinn að gleyma. Eflaust er ég svona sjálfur. Það kemur í ljós á morgun.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×