Innlent

Fá skólavist í Samskiptamiðstöð heyrnarlausra

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Andri Fannar Ágústsson er sonur Bjargar.
Andri Fannar Ágústsson er sonur Bjargar.
Tveir heyrnarlausir drengir úr Holtaskóla í Reykjanesbæ munu ljúka grunnskólanámi sínu í Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Í Fréttablaðinu þann 8. júní var sagt frá því að óvissa ríkti skólavist drengjanna tveggja. Holtaskóli gat ekki tekið við þeim þar sem enginn kennari sem kann táknmál kenndi við skólann. Þá gátu skólar í Reykjavík ekki tekið við þeim. Annar drengurinn er á leið í níunda bekk en hinn í tíunda.

„Þeir verða fjóra daga vikunnar í skóla á Samskiptamiðstöðinni og einn dag í viku í Holtaskóla,“ segir Björg Hafsteinsdóttir, móðir annars drengsins. Þeir munu vera í matreiðslu, sundi, íþróttum og verkgreinum í Holtaskóla en bóklegt nám verður í Samskiptamiðstöðinni.

Að sögn Bjargar verða drengirnir að óbreyttu þeir einu sem læra í Samskiptamiðstöðinni. Hún viti hins vegar til þess að fleiri foreldrar heyrnarlausra barna hafi hug á að börn þeirra fái þar menntun. Drengirnir fá menntun þar að minnsta kosti næstu tvö árin meðan þeir ljúka grunnskólanámi.

„Fyrir mér er þetta fyrsti vísirinn að því að það komi aftur skóli fyrir heyrnarlausa. Börnin eru oft félagslega einangruð í almennum skólum og geta illa verið þar því þar eru fáir, ef einhverjir, sem þau geta talað við. Vonandi verður þessu haldið áfram,“ segir Björg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×