Fótbolti

Birkir Már: Ekkert mál að stoppa einstaklinga ef við gerum þetta sem lið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Birkir Már Sævarsson telur liðsheld Vals geta haldið aftur af Bendtner og stjörnum Rosenborg
Birkir Már Sævarsson telur liðsheld Vals geta haldið aftur af Bendtner og stjörnum Rosenborg Stöð 2 Sport
Valur mætir norsku meisturunum í Rosenborg í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu á Hlíðarenda í kvöld. Birkir Már Sævarsson telur Val eiga góða möguleika í einvíginu.

„Þetta eru þeir leikir sem maður vill spila á hverju ári, að spreyta sig í Evrópu og fá leiki á móti þessum stóru liðum í Skandinavíu,“ sagði Birkir Már á blaðamannafundi Vals fyrir leikinn í Fjósinu að Hlíðarenda í gær.

„Ég býst við erfiðum leik, þetta er erfiður mótherji, en við erum á heimavelli og höfum verið góðir á heimavelli. Við erum búnir að vera góðir upp á síðkastið og í fínu standi. Ef við spilum okkar leik þá eigum við góða möguleika myndi ég segja.“

Birkir Már átti fast sæti í byrjunarliði íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi þar sem hann átti meðal annars frábæran leik gegn Angel di Maria og fleiri stórstjörnum. Hann ætti því ekki að hræðast leikmenn Rosenborg, jafnvel þó þeir séu með Danann Nicklas Bendtner innanborðs.

„Jú,jú, þetta er erfiður mótherji og mjög góðir leikmenn. Ef við gerum þetta saman sem lið eins og við höfum verið að gera með landsliðinu þá á ekki að verða neitt vandamál að stoppa einstaklinga,“ sagði Birkir Már Sævarsson.

Leikur Vals og Rosenborg hefst klukkan 20:00 í kvöld og er í beinni textalýsingu hér á Vísi. Leikurinn er einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst hún klukkan 19:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×