Fótbolti

Danskur landsliðsmaður inn á listann yfir stystu HM-ferla sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Lerager í stúkunni með kærustunni á HM. Hann fékk aðeins eina stutta innkomu.
Lukas Lerager í stúkunni með kærustunni á HM. Hann fékk aðeins eina stutta innkomu. Vísir/Getty

Danski landsliðsmaðurinn Lukas Lerager spilaði sögulega lítið á HM í fóbolta í Rússlandi þar sem Danir komust í sextán liða úrslitin.

Lukas Lerager spilaði aðeins í 81 sekúndu á mótinu eftir að hafa komið inná sem varamaður í leik á móti Frakklandi í riðlakeppninni.

Lukas Lerager kom þá inná fyrir Thomas Delaney á annarri mínútu í uppbótartíma leiksins.

Lerager náði aldrei að koma við  boltann á þessum tíma en tölfræði FIFA segir að hann hafi hlaupið alls 198 metra.

Lukas Lerager komst með þessum stutta leiktíma inn á listann yfir stystu HM-ferla sögunnar. Hann skipar núna annað sæti listans.Hollenski markvörðurinn Tim Krul spilaði bara 48 sekúndur árið 2014 þegar hann kom inn rétt fyrir vítaspyrnukeppni á móti Kosta Ríka þar sem hann síðan varði tvær spyrnur. Holland vann vítakeppnina en Krul spilaði ekki meira í mótinu.

Þar sem að Tim Krul tók líka þátt í vítakeppninni þá er alveg hægt að rökstyðja það að hann hafi í raun spilað lengur en Lukas Lerager og að danski strákurinn ætti því að eiga þetta HM-met. Tölfræðilega er hann engu að síðustu í 2. sætinu á eftir Tim Krul .

Lerager fór aftur á móti uppfyrir Argentínumanninn Marcelo Trobbiani. Trobbiani á samt eina frægustu innkomu allra tíma á HM. Einu sekúndurnar sem hann spilaði á HM voru nefnilega 87 síðustu sekúndurnar í úrslitaleik HM í Mexíkó 1986.

Marcelo Trobbiani kom einu sinni við boltann í leiknum en hann átti þá hælspyrnu á félaga sinn í argentínska landsliðinu.

Lukas Lerager er 24 ára miðjumaður og leikmaður Bordeaux í Frakklandi. Leikurinn á móti Frökkum var hans fimmti landsleikur á ferlinum.

Til fróðleiks þá var það Arnór Ingvi Traustason sem spilaði minnst af íslensku strákunum á HM af þeim sem komu eitthvað við sögu. Arnór Ingvi spilaði í fjórar mínútur og 56 sekúndur eftir að hann kom inná fyrir Birki Bjarnason í leiknum á móti Króatíu. Albert Guðmundsson spilaði í 9 mínútur og 24 sekúndur á móti Króötum.

Lukas Lerager í leiknum á móti Frökkum. Vísir/Getty


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.