Fótbolti

Maradona mætti til starfa í Hvíta-Rússlandi með pompi og prakt

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Maradona mættur til starfa í Hvíta-Rússlandi
Maradona mættur til starfa í Hvíta-Rússlandi vísir/getty
Argentínska goðsögnin Diego Maradona hefur hafið störf sem formaður Dynamo Brest en hann undirritaði þriggja ára samning við félagið við hátíðlega athöfn í gær.

Dynamo Brest spilar í Hvíta-Rússlandi og hefur aldrei unnið efstu deildina þar í landi. Félagið hefur glímt við fjárhagsörðugleika á undanförnum árum og var með naumindum bjargað frá gjaldþroti fyrir tveimur árum síðan.

Nú stendur til að reisa félagið við og er Maradona ætlað að leiða það verkefni en fjárfestar frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum keyptu Dynamo Brest nýverið. Síðasta starf Maradona var einmitt í furstadæmunum þar sem hann þjálfaði lið Al Fujairah.

Maradona mætti til Hvíta-Rússlands í gær með pompi og prakt en hann kom á einkaþotu frá Rússlandi þar sem hann hefur fylgst náið með Heimsmeistarakeppninni á undanförnum vikum.

 

Maradona mun flytja til Brest
Maradona fékk alvöru móttökur í Brestvisir/getty
Maradona er af mörgum talinn einn besti knattspyrnumaður sögunnar og hann fékk svo sannarlega alvöru móttökur þegar hann mætti til Brest í gær.

„Ég hræðist ekki áskoranir. Ég hræðist ekki alvarleg verkefni og fólkinu hér virðist vera mjög alvara með þetta verkefni. Ég þurfti á áskroun að halda, mikilvægu verkefni til að sýna að ég hætti aldrei að vinna,“ sagði Maradona á blaðamannafundi við komuna til Brest.

„Ég ber mikla virðingu fyrir fólkinu sem veitir mér þetta tækifæri og við ætlum að endureisa trú fólks á liðinu. Við munum byggja upp frábært lið og veita krökkum tækifæri til að koma úr akademíunni og verða að góðum knattspyrnumönnum,“ sagði Maradona einnig.

Tæplega 350 þúsund manns búa í Brest sem stendur á landamærum Hvíta-Rússlands og Póllands og mun Maradona lifa og starfa í borginni.

„Sú staðreynd að Diego muni búa í Brest fær okkur til að trúa að fólk frá öllum heimshornum muni koma og horfa á liðið okkar spila,“ sagði Viktor Radkov, stjórnarformaður Dynamo Brest þegar Maradona var kynntur til sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×