Skoðun

Verslun virkar

Davíð Þorláksson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur hafið tollastríð með því að leggja tolla á stál, ál, kínverskar vörur auk þess sem boðaðir hafa verið tollar á bíla og bílahluti. Það er gert undir því yfirskyni að verið sé að standa vörð um störf heima fyrir með því að leggja tolla á erlend ríki. Þetta hefur vakið lukku hjá sumum kjósendum hans, en atvinnulífið er ekki sátt. Tollar Trumps eru nefnilega ekkert annað en skattahækkun á bandaríska neytendur og fyrirtæki. Þar á meðal eru framleiðendur, bændur og tæknifyrirtæki sem munu öll borga meira fyrir algengar vörur og efni.

Kína, Evrópusambandið, Mexíkó og Kanada hafa svarað fyrir sig með því að leggja á, eða tilkynna um, tolla fyrir milljarða dollara. Þau viðbrögð voru vel fyrirsjáanleg. Þeir tollar munu gera bandarískar vörur dýrari sem mun leiða til minni sölu og tapaðra starfa.

Helmingur allra starfa í framleiðslu í Bandaríkjunum reiða sig á útflutning og í eina af hverjum þremur ekrum af ræktarlandi er plantað fyrir útflutning. Aðgerðir Trumps ógna allt að 2,6 milljónum starfa og gætu haft mjög slæm áhrif á hagkerfið. Sömu sögu er að segja af hinum löndunum. Í tolla­stríði, eins og stríði almennt, eru engir sigurvegarar.

Verslun og viðskipti eru nefnilega ekki bara einkamál fyrirtækja. Frjáls viðskipti fjölga störfum og auka svigrúm til launahækkana. Þau skila gjaldeyri og sköttum sem standa undir velferðarkerfinu. Trump hefur breytt flaggskipi kapítalismans að þessu leyti í gamaldags land sem leggur stein í götu verslunar og viðskipta.




Skoðun

Sjá meira


×