Skoðun

Allt í rétta átt hjá sveitarfélögunum

Elvar Orri Hreinsson og Sölvi Sturluson skrifar
Rekstur sveitarfélaganna var nokkuð góður á síðasta ári. Afgangur sem hlutfall af tekjum A-hluta nam fjögur prósent og hefur það hlutfall farið vaxandi. Í áætlunum sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram og að hlutfall rekstrarniðurstöðu á móti tekjum verði orðið um sex prósent árið 2021.

Skýringin á betri rekstrarniðurstöðu felst meðal annars í lægri fjármagnsgjöldum sökum lægri skuldsetningar og hagstæðara lánaumhverfis ásamt því að tekjur jukust umfram gjöld.

Meiri áhersla á fjárfestingar

Undanfarin ár hefur áhersla sveitarfélaganna í ríkum mæli verið á að lækka skuldir og stendur rekstur langflestra sveitarfélaga nú vel undir skuldsetningu sinni. Skuldir sem hlutfall af eignum sveitarfélaganna hafa lækkað frá því það náði hámarki í 73 prósentum árið 2009. Hlutfallið var 56 prósent árið 2017 og hefur ekki verið lægra frá árinu 2007.

Sölvi Sturluson, viðskiptastjóri mannvirkja og innviða hjá Íslandsbanka
Sveitarfélögin hafa lækkað langtímaskuldir sínar á hverju ári frá 2009, samtals um 193 milljarða króna. Samhliða áherslu sveitarfélaganna á að lækka skuldir má segja að myndast hafi ákveðin fjárfestingarþörf líkt og sást á liðnu ári þar sem fjárfesting á sveitarstjórnarstiginu óx töluvert umfram væntingar. Þá eru umtalsverðar fjárfestingar einnig ráðgerðar á þessu ári.



Svigrúm til skattalækkana?

Skatttekjur eru helsti tekjuöflunarþáttur sveitarfélaganna og leika útsvarstekjur þar stærsta hlutverkið. Langflest þeirra innheimta hámarksútsvar (14,52%) og eru álögur íbúa þeirra því með hæsta móti. Einungis þrjú sveitarfélög innheimta lágmarksútsvar (12,44%) og 15 sveitarfélög eru þar á milli. Það er því ljóst að heilt yfir er svigrúm sveitarfélaganna til lækkunar á útsvari meira en til hækkunar. Í ljósi uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar munu sveitarfélögin að öllum líkindum frekar leggja áherslu á að mæta þeirri þörf áður en til skattalækkana kemur.

Höfundar starfa hjá Íslandsbanka




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×