Innlent

Segir kostnað aðstoðarmanna nægja til að hækka árslaun allra ljósmæðra um eina og hálfa milljón

Birgir Olgeirsson skrifar
Sigmundur Davíð á landsþingi Miðflokksins.
Sigmundur Davíð á landsþingi Miðflokksins. Fréttablaðið/Ernir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir þróun aðstoðarmanna ríkisstjórnar Íslands vera sláandi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svaraði í dag fyrirspurn Sigmundar um aðstoðarmenn ráðherra og annað starfsfólk.

Í svörum Katrínar kom fram að áætlaður árlegur kostnaður við aðstoðarmenn ráðherra og annað aðstoðarfólk er 427 milljónir króna. Sigmundur spurði hversu marga aðstoðarmenn ráðherrar og ríkisstjórn hefðu ráðið án auglýsingar frá því að ríkisstjórnin tók til starfa. Kom fram að alls hefðu 24 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar verið ráðnir á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands. Nú séu starfandi alls 22 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar.

Jafnframt spurði Sigmundur hvort að aðstoðarmenn hefðu áður verið fleiri en nú. Ekki er annað að skilja á svarinu en að svo sé ekki þar sem árið 2017 hafi 20 aðstoðarmenn verið að störfum þegar mest var og er það næstmesti fjöldi aðstoðarmanna sem verið hefur.

Sigmundur fjallar um þessa þróun á Facebook-síðu sinni en hann segir enga ríkisstjórn hafa haft eins marga pólitíska aðstoðarmenn og kostnaðurinn aldrei verið nálægt því eins mikill og nú.

Til að setja upphæðina í samhengi, það er áætlaðan árlegan kostnað upp á 427 milljónir króna, bendir Sigmundur á að sú upphæð myndi nægja til að hækka árslaun allra 280 til 399 starfandi ljósmæðra landsins um eina og hálfa milljón króna.

„Nú er ég ekki að halda því fram að ráðherrar ættu ekki að hafa aðstoðarmenn eða setja út á fólkið sem vinnur pólitísk störf fyrir ríkisstjórnarflokkana en þróunin er sláandi,“ skrifar Sigmundur.

Hann rifjar upp þegar gert var sprell með að hann hefði í sinni ráðherratíð haft marga aðstoðarmenn og ýmsir starfsmenn ríkisstjórnar og annarra ráðuneyta tíndir til.

„Ég réði hins vegar aldrei meira en einn aðstoðarmann forsætisráðherra og samnýtti hann á meðan ég gegndi embætti dómsmálaráðherra. Einnig hvatti ég ráðherra til að nýta eins fáa pólitíska aðstoðarmenn og þeir teldu fært,“ skrifar Sigmundur.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur ráðið til sín alls 24 aðstoðarmenn síðan hún tók til starfa en nú eru 22 starfandi. fréttablaðið/ernir

Honum bauðst hins vegar að fá lánaða aðstoðarmenn, meðal annars einn sem hópur í Framsóknarflokknum hafði milligöngu um.

„Sá bauðst til að vinna launalaust enda þegar á launum hjá ríkinu annars staðar. Ég taldi þetta hið besta sparnaðarráð en eins og síðar átti eftir að koma í ljós hefði ég betur hugað að hinu fornkveðna „timeo Danaos et dona ferentes” - „varastu Grikkina þegar þeir vilja færa þér gjafir”,“ skrifar Sigmundur.

Í nóvember árið 2013 var greint frá því að Ásmundur Einar Daðason hefði verið ráðinn sem aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Í tilkynningu kom fram að um tímabundna ráðningu væri að ræða og Ásmundur myndi sjá um að samhæfa verkefni milli ráðuneyta og fylgja eftir tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Kom fram að Ásmundur myndi hvorki þiggja laun né önnur fríðindi fyrir störf sín fyrir forsætisráðherra, enda starfandi þingmaður á þeim tíma.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.