Skoðun

Að senda náttúrunni reikning fyrir skaðanum

Bubbi Morthens skrifar
Lúsafaraldur í fiskeldi er það versta sem hugsast getur fyrir alla á þeim vettvangi, þig, mig og þá. Stofnunin sem fer með eftirlitið með laxeldisfyrirtækjum, Matvælastofnun, notar orðið „meðhöndlun“ þegar hún gefur laxeldisfyrirtækjum hér á landi heimild til að nota eitur til að stöðva það sem verður ekki stöðvað. Eina leiðin til þess að meðhöndla laxalús í eldi er að nota eitur og það helling af því. Hvert halda menn svo að þetta eitur berist? Svarið er: Í allt lífríkið. Svo einfalt er það.

Hvað sögðu talsmenn Norðmanna hér á landi? Að það væri engin hætta á að laxalús yrði til vandræða en annað hefur komið í ljós. Nú nýlega fór fram uppboð á laxeldiskvóta í Noregi. Þar fór laxeldisleyfið fyrir tonnið á tæpar 2,6 miljónir króna. Samkvæmt því kostar þá leyfi fyrir 6.000 tonna laxeldi fyrir Laxa ehf. í Reyðarfirði 15,4 miljarða. Það sama á við um önnur fyrirtæki í laxeldi hér á landi. Út af hverju halda menn að Norðmenn hafi komið hingað og séu að gleypa firðina og hafi alls konar fólk á launum til þess að verja þessa mengandi stóriðju? Jú, hér sjá þeir gróða og marklaust eftirlit og ráðamenn sem sjá atkvæði í því að vera ekki með neitt vesen. Það hefur verið sannað að laxeldi hefur vond og óafturkræf áhrif á villta laxastofna.

Laxeldi í opnum kvíum er skaðlegt lífríkinu við strendur Íslands. Laxeldi á landi eða í lokuðum kvíum er eina umhverfisvæna leiðin til þess að vernda lífríkið við strendur landsins en það kostar peninga og Norðmennirnir sem hingað eru komnir og talsmenn þeirra hafa engan áhuga á því að borga það gjald. Þeir hafa áhuga á að ryksuga upp gullið úr lífríkinu við strendur Íslands og senda náttúrunni reikninginn fyrir skaðanum.

Höfundur er tónlistarmaður




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×