Innlent

Fjórir fluttir á sjúkrahús eftir að eldur kom upp á Icelandair-hótelinu á Akureyri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjórir voru fluttir á sjúkrahús frá hótelinu.
Fjórir voru fluttir á sjúkrahús frá hótelinu. fréttablaðið/pjetur
Fjórir voru fluttir á sjúkrahús í kvöld vegna gruns um reykeitrun eftir að eldur kom upp á Icelandair-hótelinu við Þingvallastræti á Akureyri. Slökkviliðið á Akureyri fékk tilkynningu um eldinn klukkan 18:49 í kvöld og var slökkvistarfi lokið um klukkustund síðar.

Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, segir að töluvert mikill reykur hafi verið á hótelinu þegar slökkvliðið kom á staðinn en eldinn má rekja til arins sem er í stiga á milli hæða. Á neðri hæð er borðsalur og á efri hæð bar.

„Það var orðið þungskýjað uppi á barnum þegar við komum þangað. Það var enn eldur í þessu og starfsfók að reyna að slökkva en reykkafarar frá okkur fóru síðan inn og slökktu og það gekk fljótt og vel fyrir sig,“ segir Ólafur.

Húsið var rýmt og gekk rýming vel fyrir sig að sögn Ólafs en það tók síðan töluverðan tíma að reykræsta húsið þar sem reykur hafði farið nokkuð víða, meðal annars um allt eldhúsið og hluta af kjallaranum.

Voru rúta og strætisvagn fengin á staðinn svo að gestir hótelsins kæmust í skjól á meðan verið væri að reykræsta en þegar slökkvistarfi var lokið skömmu fyrir klukkan átta í kvöld var gestum hleypt aftur inn á hótelið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×