Fótbolti

Sumarmessan: Allar sendingar frá Jordan Pickford hafa einhverja þýðingu

Einar Sigurvinsson skrifar
Jordan Pickford var valinn maður leiksins eftir sigur enska landsliðsins gegn því sænska í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Rússlandi og var frammistaða hans til umræðu í Sumarmessu gærkvöldsins.

Benedikt Valsson stýrir þættinum sem er á dagskrá Stöðvar 2 Sport að kvöldi hvers leikdags á meðan heimsmeistaramótinu stendur. Með honum í þætti gærdagsins voru þeir Hjörvar Hafliðason og Ríkharður Daðason.

„Ég geri kröfur á að markmaður Englands verji þessi skot, en hann ver þau og gerir það rosalega vel,“ sagði Hjörvar um markvörslur Pickford í leiknum í gær.

„Hins vegar voru það ekki þessi tilþrif sem heilluðu mig mest við Jordan Pickford í dag. Heldur það sem hefur alltaf heillað mig við Pickford, það hvernig hann sparkar í boltann. Allar sendingar frá Jordan Pickford hafa einhverja þýðingu,“ bætti hann við.

Þá barst talið að enska landsliðinu sem hefur heillað Ríkharð Daðason. Hann telur þó ólíklegt að draumurinn um að fótboltinn sé á heimleið rætist.

„Southgate er búinn að gera mjög vel. Þeir eru lið en ég held þeir séu búnir að fá það mesta sem þeir geta fengið úr þessu liði. Ég held Króatía slái þá út. En það eru bara tveir leikir eftir, þeir geta alveg unnið,“ sagði Ríkharður.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×