Fótbolti

Heimir: Ekki góð staða en gefum allt í Króatíuleikinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Heimir á hliðarlínunni í dag
Heimir á hliðarlínunni í dag Vísir/getty
Ísland tapaði fyrir Nígeríu í öðrum leik riðlakeppninnar á HM í Rússlandi. Heimir Hallgrímsson var eðlilega grautfúll í leikslok en leikurinn var mjög krefjandi og erfiður í miklum hita.

„Mér fannst við í fínum málum í fyrri hálfleik. Vissum að þeir þurftu að koma á okkur og sækja. 0-0 í hálfleik var það sem við vildum,“ sagði Heimir í beinni útsendingu á RÚV eftir leikinn.

„Við fáum á okkur mark úr okkar horni sem er ólíkt okkur. Gerum einstaklingsmistök og þeir voru komnir í draumastöðu.“

„Það var erfitt að sprikla í hitanum eins og leikurinn spilaðist fram og til baka, en ég vil hrósa mínu liði fyrir dugnað og vinnusemi.“

Heimir sagði markið hafa breytt leiknum þar sem íslenska liðið þurfti að fara framar og við það opnuðust svæði fyrir Nígeríu.

„Jafnteflisstaðan var góð og við vildum virða hana. Okkur leið ágætlega þó við værum ekki að skapa mikið.“

„Nú þurfum við að safna liði og orku. Við þurfum að vinna Króatíu, það er ekkert sérstaklega góð staða en við munum gefa allt í þann leik og sjá hvert það fer með okkur,“ sagði Heimir Hallgrímsson.

Nú þarf Ísland að treysta á að Argentína vinni Nígeríu til þess að komast áfram, sama hvort það vinnist sigur á Króatíu eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×