Fótbolti

Kári: Veit ekki af hverju skipulagið riðlaðist

Henry Birgir Gunnarsson í Kabardinka skrifar
Kári á fundinum í morgun.
Kári á fundinum í morgun. vísir/vilhelm
Kári Árnason var ekki með svör á reiðum höndum af hverju íslenska liðið hefði ekki náð sér á strik í síðari hálfleik gegn Nígeríu eftir flottan fyrri hálfleik.

„Við töpuðum leiknum og því var auðvitað eitthvað sem við hefðum getað gert betur. Við erum með plan B og færslur sem við tökum er við þurfum að sækja mark,“ segir Kári og bætir við.

„Það sem gerist er að skipulagið riðlast fullmikið. Af hverju það gerist veit ég ekki. Við vorum alveg með þetta lið. Þeir eiga ekki skot að marki í fyrri hálfleik. Við skulum ekki gleyma því.“

Kári var augljóslega ósáttur við að einhverjir hafi talað um að þeir hafi átt að vinna Nígeríu.

„Fólk talar eins og við eigum að vinna þá. Það er enginn í liðinu sem hugsar þannig. Ekki einn maður. Við hugsum að við getum unnið Nígeríu og ætlum að gera það. Þetta er stórþjóð í fótbolta og við vorum litla liðið í þessum leik. Við höldum ekki að við séum það góðir að við mætum bara og rústum Nígeríu,“ segir Kári ákveðinn.

„Leikskipulagið var frábært í fyrri hálfleik. í stöðunni 1-0 er þetta allt annar leikur. Þeir fá skyndisókn eftir fast leikatriði hjá okkur sem má ekki gerast. Eftir það riðlast leikurinn og það átti ekki að gerast. Við vorum með plan B en það gekk ekki upp. Við vorum með fá svör er þeir drógu okkur framar.“

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×