Fótbolti

Messi þakkar Guði fyrir að vera kominn í 16-liða úrslit

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Messi fagnar marki sínu. Hann á augljóslega í góðu sambandi við Guð.
Messi fagnar marki sínu. Hann á augljóslega í góðu sambandi við Guð. vísir/getty
Lionel Messi telur æðri máttar völd hafa hjálpað Argentínu áfram úr D-riðli okkar Íslendinga á HM í Rússlandi.

Argentína komst, með naumindum, í 16-liða úrslit eftir 2-1 sigur á Nígeríu þar sem Marcos Rojo gerði sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok. Á sama tíma vann Króatía 2-1 sigur á strákunum okkar og þar með vann Argentína sér keppnisrétt í 16-liða úrslitum.

Messi skoraði fyrra mark Argentínu og það var augljóst að þungu fargi var af honum létt í leikslok enda pressan á kappanum nánast yfirgengileg.

„Við vorum vissir um að við myndum vinna þennan leik. Það er dásamlegt að hafa unnið hann á þennan hátt og þetta var vel verðskuldað,“ sagði Messi áður en hann minntist á þátt æðri máttar valda; sem virðast styðja við bakið á Argentínu.

„Ég vissi að Guð væri með okkur og hann var ekki að fara að skilja okkur eftir. Ég vil þakka öllu fólkinu sem kom hingað og fórnaði ýmsu til að styðja okkur og fólkinu í Argentínu sem stendur alltaf með okkur,“ sagði Messi.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×