Fótbolti

Paul Scholes sér engin heimsmeistaraefni ennþá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hverjir kyssa HM-styttuna 15. júlí. Paul Scholes telur að allt að tíu þjóðir geti unnið HM.
Hverjir kyssa HM-styttuna 15. júlí. Paul Scholes telur að allt að tíu þjóðir geti unnið HM. Vísir/Getty
Manchester United goðsögnin Paul Scholes segist ekki sjá eitt lið ennþá á HM sem hefur sýnt að það ætli að fara alla leið og vinna heimsmeistaratitilinn.

Paul Scholes var í úrvarpsviðtali hjá BBC Radio 5 Live þar sem hann var spurður út í mögulega heimsmeistara í ár.

„Það er erfitt að segja hvaða lið eru heimsmeistaraefni í dag. Eftir tvo til þrjá leiki er maður vanalega búinn að sjá slíkt lið á HM en þetta er allt opið ennþá.

„Kannski getur lið unnið óvænt, lið eins og Úrúgvæ sem er með tvo mjög öfluga miðverði og góða framherja. Það er heldur ekki hægt að afskrifa lið eins og Brasilíu og Þýskaland,“ sagði Paul Scholes.

„Við getum heldur ekki afskrifað enska landsliðið. Ég veit að þeir voru bara að vinna Panama en ef Brassarnir hefðu unnið þá svona þá værum við að missa okkur yfir þeim,“ sagði Scholes.

„Enska liðið fer fullt sjálfstrausts inn í Belgíuleikinn,“ sagði Paul Scholes en England og Belgía eru bæði með 6 stig og markatöluna 8-2 eftir tvo leiki.

Það er allavega útlit fyrir mjög spennandi útsláttarkeppni ef marka má orð Paul Scholes.

„Það eru tíu þjóðir sem gætu orðið heimsmeistarar,“ sagði Paul Scholes.

Hann gæti þar verið að tala um Þýskaland, Argentínu, Frakkland, Belgíu, England, Brasilíu, Spán, Úrúgvæ, Mexíkó og Portúgal eða jafnvel Kóumbíu eða Króatíu. Jú það stefnir í æsispennandi sextán og átta liða úrslit á HM.

Paul Scholes fagnar marki í leik með Manchester United.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×