Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: KR 0-1 Víkingur | Bjarni Páll hetja Víkinga í mikilvægum sigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr leiknum.
Úr leiknum. vísir/bára
Víkingur vann gríðarlega mikilvægan útisigur á KR í Vesturbænum í 11. umferð Pepsi deildar karla í fótbolta í kvöld. Bjarni Páll Runólfsson skoraði eina mark leiksins snemma í seinni hálfleik.

Víkingar byrjuðu leikinn á að gera sig líklega fyrir framan KR markið en náðu ekki að skapa sér opið færi. Eftir það var fyrri hálfleikurinn nánast eign KR og Víkingar komust sjaldan í almennilegar stöður sóknarlega.

Markvörður Víkinga, Daninn Andreas Larsen, var algjörlega frábær í fyrri hálfleiknum og varði eins og enginn væri morgundagurinn. Það var í raun ótrúlegt að KR hafi ekki náð að koma boltanum í marknetið svo oft voru þeir í dauðafærum á að skora. Markið kom þó ekki og markalaust þegar liðin gengu til hálfleiks.

Sigurður Hjörtur Þrastarsson hafði varla flautað seinni hálfleikinn á þegar Bjarni Páll Linnet Runólfsson skilaði boltanum í markið og kom Víking yfir. Nær fullkomin eftirlíking af byrjun fyrri hálfleiks nema í þetta skiptið náðu Víkingar að skapa sér marktækifæri og þeir nýttu það.

Eftir markið gátu Víkingar einbeitt sér að því að þétta raðirnar og þeir gerðu vel í að verjast aðgerðum KR. Heimamenn sköpuðu sér ekki nærri því eins mikið af opnum marktækifærum í seinni hálfleiknum og ógnuðu jöfnunarmarkinu ekkert sérstaklega.

Undir lokin settu þeir aðeins meiri pressu á Víkinga en uppskáru ekki, 1-0 sigur Víkings lokatölur.

Af hverju vann Víkingur?

Þeir nýttu eitt af örfáum marktækifærunum sem þeir fengu á meðan KR misnotaði sín færi ítrekað. Það er í stuttu máli það sem réði úrslitunum. Það að ná inn markinu svona snemma í seinni hálfeik, sérstaklega eftir öll stórhættulegu færin sem KR fékk í þeim fyrri, gerði mikið fyrir Víkinga sem gátu einbeitt sér að varnarleiknum og þar eru þeir með mjög góða pósta sem réðu við nær allt sem KR-ingar reyndu.

Hverjir stóðu upp úr?

Maður leiksins er markmaðurinn Andreas Larsen án nokkurs vafa. Ef ekki hefði verið fyrir hann þá hefði KR unnið þennan leik með þremur eða fjórum mörkum. Miðverðirnir Halldór Smári Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen voru einnig mjög góðir.

Hjá KR var það helst Björgvin Stefánsson sem gekk hvað best fram á við, félagar hans í sóknarlínunni voru nokkuð mistækir.

Hvað gekk illa?

Færanýting KR og ákvarðanatökur í sóknarleiknum urðu þeim að falli. Í seinni hálfeik gekk þeim svo illa að opna vörn Víkings.

Hvað gerist næst?

Stutt í næstu umferð, hún er leikin á fimmtudaginn. Þá byrjar seinni umferðin, þó enn eigi eftir að leika nokkra leiki úr 10. umferð, og KR-ingar fá Valsmenn á Alvogenvöllinn í stórleik þar sem þeir hafa harma að hefna eftir sigurmark í uppbótartíma á Hlíðarenda í apríl. Víkingur sækir Fylki heim í Egilshöllina.

Bára Dröfn, ljósmyndari Vísis, var á Alvogenvellinum í kvöld og tók myndirnar með fréttinni.

vísr/bára
Logi: Nauðsynlegt að ná þessum sigri

„Við vorum ósáttir við sjálfa okkur í leiknum á móti FH og fengum hálfan mánuð til þess að vinna í hlutunum og nýttum þær tvær vikur vel. Þegar við náum að halda markinu hreinu og nýta færin okkar þá er alltaf von á sigri,“ sagði nokkuð ánægður Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, eftir leikinn.

„Þeir voru auðvitað meira með boltann og KR er með feykilega gott lið, vel spilandi menn sem eru sterkir einn á móti einum og fljótir að finna sér pláss þannig að þetta er erfitt fyrir okkur. Það er bara alveg ljóst. Að halda KR svona frá markinu og láta þá ekki skora er bara mjög gott.“

Það má segja að markið hafi komið gegn gangi leiksins og var það Daninn í markinu sem sá til þess að staðan var jöfn í hálfleik.

„Hann var góður og við erum mjög ánægðir með hans framlag.“

Sigurinn var mjög mikilvægur fyrir Víking, sérstaklega í ljósi þess að ÍBV og Fjölnir, lið sem eru í baráttunni í neðri hlutanum líkt og Víkingur, unnu í dag.

„Það er bara mjög mikilvægt. Þoka okkur aðeins af þessu svæði, það var nauðsynlegt fyrir okkur. Þetta er eitthvað sem við getum byggt mjög mikið ofan á og með þessu framlagi og að halda markinu hreinu þá eigum við alltaf von á sigri,“ sagði Logi Ólafsson.

 

Rúnar: Hefðum með öllu réttu átt að taka þrjú stig

„Það lið sem skorar vinnur leikinn. Það var það sem skiptir máli í dag, þetta eina mark,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, aðspurður hvað hafi farið úrskeiðis hjá hans mönnum í dag.

Það má segja að það hafi verið hreint ótrúlegt að KR hafi ekki náð að koma inn marki í fyrri hálfeik.

„Við sköpuðum okkur alveg helling og stjórnuðum leiknum frá A til Ö. Ég man ekki til þess að Víkingar hafi fengið nema eitt færi í leiknum en þeir skoruðu úr klafsi í upphafi síðari hálfleiks og við erum ósáttir við það. Við erum ósáttir við að tapa á heimavelli og ósáttir við að nýta færin okkar ekki betur.“

„Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik, spiluðum kannski ekki eins vel í síðari og sköpuðum ekki eins mikið þó við höfum verið mikið með boltann en Víkingarnir voru þéttir fyrir og vörðust mjög vel. Það er súrt að tapa.“

KR á stórleik við Val á fimmtudaginn og þarf liðið að hrista þetta tap af sér fyrir þann leik.

„Þar er nýtt tækifæri, nýr leikur og við þurfum að gíra okkur upp í það. Við erum að vinna í ákveðnum hlutum sem voru flottir í dag og hefðum með öllu réttu átt að taka þrjú stig en það gerðist ekki í dag. Fótboltinn er skrítinn stundum og þú færð ekki alltaf það sem þú átt skilið,“ sagði Rúnar Kristinsson.

vísir/bára
Bjarni Páll: Verður að nýta sénsana annars verður þér refsað

Markaskorari Víkings, Bjarni Páll Runólfsson, var sáttur í leikslok. „Alltaf gaman að skora, sérstaklega í Skjólinu, svo þetta var bara mjög skemmtilegt.“ 

„Andreas varði stórkostlega í fyrri hálfleik og hélt okkur svolítið inn í þessu. Það var frábært að ná að byrja seinni hálfleikinn á að skora, þá gátum við þétt aðeins raðirnar og dottið niður og vorum svolítið með þá þar. Þeir voru ekki að fá nein færi í seinni hálfleik, við héldum skipulaginu og þetta var bara frábær liðsframmistaða.“

Það má alveg halda því fram að Víkingur hafi kannski ekki átt skilið að fara með öll þrjú stigin úr Vesturbænum í kvöld eftir frammistöðu KR í fyrri hálfleik en það er ekki spurt að því

„Það er nú oft þannig. Þú verður að nýta sénsana þína, annars verður þér refsað, og við refsuðum bara. Þannig gera góð lið bara. Héldu skipulaginu, þeir nýttu ekki sína sénsa en við nýttum okkar. Þetta var bara frábært.“

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Víking sem er í harðri baráttu í neðri hluta deildarinnar.

„Við vorum ekki að spila nógu vel fyrir þetta hlé svo við ákváðum að byrja af krafti núna og sína okkar rétta andlit héðan í frá. Geggjað að byrja á þremur punktum í Skjólinu,“ sagði Bjarni Páll Runólfsson.

Óskar Örn: Ef þú skorar ekki áttu ekki skilið að vinna

Fyriliði KR, Óskar Örn Hauksson, var frekar stuttorður í leikslok og greinilega ekki sáttur með frammistöðu síns liðs.

„Ég held það sé einfalt, við skorum ekki. Fengum nokkur dauðafæri og ef þú skorar ekki þá áttu ekki skilið að vinna fótboltaleiki,“ svaraði Óskar aðspurður hvað hafi farið úrskeiðis.

„Við áttum að vera tveimur, þremur mörkum yfir í hálfeik en ef þú skorar ekki þá er alltaf þessi hætta að fá mark á sig, við gerðum það í dag og náðum ekki að koma til baka.“

Hefðu KR-ingar geta gert betur í sínum færum eða var það frábær frammistaða Larsen í markinu sem kom í veg fyrir að þeir skoruðu?

„Bara bæði held ég. Held það sé stutta, einfalda útgáfan af þessu.“

KR-ingar verða að gíra sig upp í stórleikinn við Val ef þeir ætla að eiga möguleika á því að blanda sér í toppbaráttuna.

„Það verður erfitt í kvöld en það er bara að rífa sig upp og gera það eins og menn,“ sagði Óskar Örn Hauksson.

vísir/bára
Logi Ólafsson tók við Víkingum á síðasta tímabilivísr/bára
vísir/bára
vísir/daníel
vísir/daníel
vísir/bára
Atli Sigurjónsson kom ferskur inn af bekknum í dag en náði ekki að skoravísir/bára
Bjarni Páll átti góðan leik í dag og kórónaði hann með markivísir/bára
Rúnar Kristinsson þungur á brúnvísir/bára

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira