Innlent

Kristján gefur lítið fyrir mótmæli gegn hvalveiðum: „Þetta hefur ekki áhrif á okkur“

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Hvalveiðum var mótmælt viðÆgisgarðí hádeginu, en veiðarnar sem áttu að hefjast í dag munu tefjast um nokkra daga. Framkvæmdastjóri Hvals hf. segir ekkert vit í málflutningi mótmælenda.

Til stóð að lagt yrði úr höfn í dag og haldið til hvalveiða í fyrsta sinn eftir tveggja ára hlé. Þó ekki hafi orðið úr því ákvað hópur fólks að koma saman við Ægisgarð og mótmæla fyrirhuguðum veiðum.

Segir hvali göfuga og góða

„Við erum bara komin hingað til að reyna að vernda hvalina. Þetta eru mjög göfugar og góðar skepnur sem gera mikið fyrir lífríki sjávar og við viljum bara sjá þær í sjónum, en ekki hérna, dregna á eftir bátum,“ sagði Valgerður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka grænmetisæta á Íslandi og einn skipuleggjandi mótmælanna.

Engir hvalir voru þó dregnir eftir bátum í dag.

„Það hefur verið svo mikil rigning nú allan maímánuð svo það hefur tekið lengri tíma, hvað varðar að mála og annað hjá okkur utandyra þarna í Hvalfirði. Þetta hefur gengið allt hægar,“ segir Kristján.

Viðhald á skipi dregist

Þá hafi viðhald á öðru skipi fyrirtækisins sem nú er í slipp orðið umfangsmeira en útlit var fyrir. Því muni veiðarnar dragast nokkuð fram í vikuna hið minnsta. Mótmælendur ætla að halda áfram af fullum krafti eins lengi og til stendur að veiða hval.

„Ég hef ekki heyrt nein góð rök fyrir því að við eigum að halda áfram að veiða hval. Það er enginn með næringarskort af því að hann borðaði ekki nógu mikinn hval,“ sagði Birkir Steinn Erlingsson, formaður Vegan samtakanna, sem einnig kom að skipulagningu mótmælanna.

„Þetta er mjög kvalafullur dauðdagi sem hvalir hljóta þegar þeir eru skotnir, sem er ekki hægt að verja með neinum rökum. Þar að auki virðast ekki vera kaupendur fyrir þessum vörum,“ sagði Valgerður enn fremur.

„Það passar ekki neitt af þessu“

Kristján gefur aftur á móti lítið fyrir þessi sjónarmið mótmælenda.

„Jújú, það finnur alltaf eitthvað til að réttlæta það sem verið er að segja, það passar ekkert af þessu neitt, þetta fólk sem er á móti öllu hér í landinu. Þetta hefur ekki áhrif á okkur allavega,“ segir Kristján.

Leyfi var veitt fyrir veiðum á 161 dýri í sumar. Kristján kveðst sannfærður um að markaður sé fyrir allt þetta magn og er spenntur fyrir góðri veiði.

„Hvalastofnarnir eru sterkir, það eru engin vandræði með það. Ég reikna með að þeir verði bara hérna á miðunum þar sem við höfum verið síðan 1948, þannig að ég reikna ekki með neinni breytingu á því,“ segir Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×