Innlent

Ölvaður hjólreiðamaður skemmdi bíla

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vart þarf að taka fram að þetta er ekki hjólreiðamaðurinn sem um ræðir, heldur uppstillt mynd úr erlendum myndabanka.
Vart þarf að taka fram að þetta er ekki hjólreiðamaðurinn sem um ræðir, heldur uppstillt mynd úr erlendum myndabanka. Vísir/Getty
Ölvun setti svip sinn á nóttina hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hið minnsta sjö ölvaðir einstaklingar komust í kast við lögin vegna framgöngu sinnar, þar af voru þrír handteknir.

Í dagbók lögreglunnar segir frá manni, sem lýst er sem ofurölvi, sem handtekinn var við Kringluna á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þar segir jafnframt að ítrekað hafi verið búið að vísa manninum frá verslunarmiðstöðinni en hann hafi ekki látið segjast. Því hafi verið kallað til lögreglu sem flutti manninn í fangageymslu.

Um klukkustund síðar var ölvaður einstaklingur á reiðhjóli handtekinn við Grettisgötu. Hann er talinn hafa valdið tjóni á nokkrum bifreiðum í miðbænum, hversu miklu eða á hversu mörgum ökutækjum fylgir ekki sögunni. Hjólreiðamaðurinn var sömuleiðis fluttur á Hverfisgötu þar sem hann hefur mátt verja nóttinni í fangaklefa.

Það var svo á Laugavegi sem karlmaður í annarlegu ástandi var handtekinn skömmu fyrir klukkan 22 í gærkvöld. Hann er sagður hafa verið að áreita fólk en ekki er greint frá því í dagbókarfærslunni hvort einhverjar stympingar hafi orðið vegna málsins. Hann, rétt eins og fyrrnefndu stútarnir tveir, var handtekinn og dvaldi í nótt á Hverfisgötu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×