Fótbolti

103 mánuðir síðan Sara Björk missti síðast af keppnisleik hjá landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Vísir/Getty
Íslenska kvennalandsliðið verður án fyrirliða síns Söru Bjarkar Gunnarsdóttur í kvöld þegar liðið mætir Slóveníu í undankeppni HM 2019.

Leikurinn fer fram á Laugardalsvellinum og með sigri komast íslensku stelpurnar upp í efsta sæti riðilsins.

Sara Björk meiddist á hásin í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og getur ekki spilað þennan leik vegna meiðslanna.

Þetta er í fyrsta sinn síðan í október 2009 sem íslenska kvennalandsliðið spilar keppnisleik án Söru.

Sara Björk missti síðasta af leik á móti Frökkum í Lyon 24. október 2009 en hún veiktist þegar landsliðið kom til Frakklands.

Síðan þá hefur Sara Björk leikið 49 keppnisleiki í röð með íslenska landsliðinu.

Það er því óhætt að segja að íslenska landsliðið þekki ekki vel þá stöðu að vera án síns besta leikmanns.

Þegar Sara Björk missti af þessum leik haustið 2009 þá voru aðeins sjö leikmenn leikmannahópsins í kvöld búnar að spila A-landsleik. Þetta voru þær Guðbjörg Gunnarsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Sandra Sigurðardóttir, Sif Atladóttir og Rakel Hönnudóttir.

Margir leikmenn íslenska liðsins í kvöld voru ekki einu sinni búnar að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik með sínu félagi þegar landsliðið var síðast án Söru í leik sem skipti máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×