Innlent

Ruglaðist á bensíngjöf og bremsu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bílstjórar eru fyrirferðamiklir í dagbók lögreglunnar eftir nóttina.
Bílstjórar eru fyrirferðamiklir í dagbók lögreglunnar eftir nóttina. Vísir/eyþór
Tveir ökumenn ollu tjóni á höfuðborgarsvæðinu í nótt; annar þeirra vegna ölvunar en hinn vegna óheppni.

Sá fyrrnefndi hafði ekið niður Njálsgötu í miðborg Reykjavíkur. Það fór ekki betur en svo að hann stýrði bifreið sinni á rafmagnskassa og handrið áður en ökumaðurinn brunaði svo af vettvangi. Lögreglan hafði þó hendur í hári hans skömmu síðar.

Við yfirheyrslu kom í ljós að ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis og þar að auki hafði hann aldrei öðlast ökuréttindi. Því var hann fluttur í fangaklefa á Hverfisgötu þar sem hann hefur mátt sofa úr sér vímuna í nótt.

Síðarnefndi ökumaðurinn hafði ekki heppnina með sér þegar hann ók um Staðarberg í Hafnarfirði. Að sögn lögreglu ruglaðist ökumaðurinn á bensíngjöfinni og bremsunni með þeim afleiðingum að hann ók bíl sínum á verslun við götuna. Einhverjar skemmdir eru sagðar hafa orðið á bifreiðinni og húsinu en svo virðist sem ökumaðurinn hafi sloppið ómeiddur.

Fjölmargir aðrar ökumenn voru stöðvaðir í nótt, flestir þeirra vegna gruns um ölvunarakstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×