Fótbolti

Gylfi Þór: Hefur tekið á en konan fær að sjá mig eftir HM

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur lagt mikið á sig til að koma tl baka eftir meiðslin.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur lagt mikið á sig til að koma tl baka eftir meiðslin. vísri/vilhelm
Gylfi Þór Sigurðsson gerði íslensku þjóðina lafhrædda þegar að hann meiddist á hné í byrjun mars í leik með Everton í ensku úrvalsdeildinni. Þáttaka hans á HM var mögulega í hættu en hann er mættur til Rússlands og er klár í slaginn.

Gylfi lagði ótrúlega mikið á sig í endurhæfingunni enda kom ekki til greina að missa af því að koma fram á þessu stærsta sviði fótboltans. Hann ferðaðist til nokkurra landa og var alltaf í stífri þjálfun til að koma aftur af krafti.

„Ég hef þurft að gera það enda var ég lengi meiddur. Það hefur gengið mjög vel hjá mér að æfa. Það hefur komið svolítið á óvart hversu vel mér líður fyrir mót,“ segir Gylfi Þór sem er sáttur með stöðuna á sér í dag.

„Ég held að það hafi komið aðeins á óvart hversu vel hefur gengið og hversu vel mér leið í síðustu tveimur leikjum og á æfingum. Ég er sáttur og mér líður vel.“

Svona endurhæfing getur tekið sinn toll en Gylfi hefur lítið náð að eyða tíma með fjölskyldu og vinum því stefna hans var sett á að komast á HM. Alexandra Helga Ívarsdóttir, kærasta Gylfa, hefur minna séð sinn mann undanfarnar vikur en áður.

„Þetta er búið að taka svolítið á, bæði fyrir mig persónulega og fyrir aðra. Ég er búinn að æfa mikið og hef verið að vakna snemma og fara á æfingar fyrir æfingar. Við eigum gott frí eftir HM saman ég og konan og þá fær hún eitthvað að sjá mig þá,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×