Innlent

Vara HM-fara við farsímakostnaði í Rússlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það getur verið dýrt að nota símann í Rússlandi.
Það getur verið dýrt að nota símann í Rússlandi. Vísir/Getty
Póst- og fjarskiptastofnun varar þá sem ætla til Rússlands á heimsmeistarmótið í knattspyrnu að reglur Evrópusambandsins um reikiþjónustu farsíma gilda ekki í landinu. Hætt er við því að farsímareikningur vegna ferðarinnar geti orðið ansi hár sé ekki hugað að þessu fyrir brottför.

Á síðasta ári tóku reglur ESB um reikiþjónustu farsíma gildi hér á landi sem þýðir að þegar íbúar ríkja innan EES-svæðisins ferðast innan þess geta þeir hringt og tekið á móti símtölum, skeytum og notað gagnamagn á sömu kjörum og gildir á áskrift þeirra heima við, á meðan notkun er innan eðlilegra marka.

Þá er einnig í gildi 50 evru hámarkskostnaður á reiki sem ætlaður er að verja neytendur innan EES-svæðisins fyrir háum reikningum vegna reikiþjónustu.

Rússlands er hins vegar hvorki í ESB né aðili að EES-svæðinu og því gilda þessar reglur ekki þar í landi.

Bendir Póst- og fjarskiptastofnun á það að verð fyrir farsímanotkun eru talsvert hærri í Rússlandi heldur en þegar reikað er innan EES svæðisins.

Vill stofnunin því benda ferðalöngum á að hafa samband við símfyrirtæki sín og fá ráðleggingar um hvernig er best að haga farsímanotkun sinni á ferðalögum í Rússlandi, bæði hvað varðar símtöl, SMS og gagnamagn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×