Innlent

Makalaus 2ja ára saga ostafrumvarpsins sem Sigmundur Davíð drap í nótt

Svefnleysi, klúður, flokkadrættir, hrossakaup, hagsmunagæsla, og brjóstamjólk. Allt kom þetta við sögu í tveggja ára löngu ferli sem endaði með því að Alþingi ákvað seint að nóttu að gera ekkert eftir allt saman.

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Erlendur ostur, mjög líklega frá meginlandi Evrópu. Vísir/Getty
Íslenskir neytendur verða á þessu ári af 104 tonnum af tollfrjálsum ostum frá Evrópu vegna breytinga sem Alþingi gerði á stjórnarfrumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á síðustu stundu í nótt.

Þær breytingar ganga í berhögg við meintan vilja Alþingis og atvinnuveganefndar á sínum tíma og stangast raunar einnig á við það sem meirihluti þeirrar nefndar lagði til nokkrum klukkutímum fyrir breytingarnar í gær.

Félag Atvinnurekenda fullyrðir að Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður atvinnuveganefndar, telji að vilji þingsins hafi verið skýr í málinu. Annað var heldur ekki að heyra á landbúnaðarráðherra og fleiri stjórnarþingmönnum í gærkvöld.

Framkvæmdastjóri Félags Atvinnurekenda, Ólafur Stephensen, segir ljóst að núverandi ríkisstjórn hafi að lokum ákveðið að láta sjónarmið hagsmunaaðila í landbúnaði ráða för en ekki hag neytenda.

En hvað gerðist nákvæmlega, hver sveik hvað á Alþingi, og af hverju fáum við ekki þessa tollfrjálsu osta fyrir vikið?

Þeim þykir osturinn góður, Evrópubúunum.Vísir/Getty

Hroki og hleypiefni

Forsaga málsins er nokkuð löng og flókin og nær allt aftur til bagalegra mistaka sem gerð voru á Alþingi við samþykkt umdeildra búvörusamninga árið 2016. Sem betur fer þurfum við ekki að kafa djúpt ofan í það mál til að skilja það sem er að gerast núna.

Það nægir að vita að þáverandi ríkisstjórn samdi við minnihlutann um að gauka vænu oststykki að neytendum í skiptum fyrir samþykkt búvörusamninganna. Það var gert til að vega upp á móti þeim skaða sem meirihluti þingmanna þá taldi einséð og óumdeilt að neytendur yrðu fyrir við samþykkt búvörusamninganna.

Í grófum dráttum var því ákveðið að milda höggið fyrir neytendur með því að auka heimildir til tollfrjálsra ostainnflutninga þremur árum fyrr en til stóð. Aukningin sjálf var óumflýjanleg vegna Evrópusamninga.

Aðeins var samið um að flýta áhrifunum þannig að strax árið 2018 yrði heimilt að flytja inn aukalega 230 tonn af  sérostum frá Evrópusambandinu, í stað þess að sú aukning yrði í skrefum yfir fjögur ár.

Þetta reyndist hin fínasta lending að matri margra, búvörusamningarnir voru samþykktir af Alþingi og þingmenn fóru í kærkomið frí frá þingstörfum.

Það var bara eitt smá vandamál: Samkvæmt stjórnarskrá Íslands hafa ráðherrar enga lagaheimild til að fella niður eða lækka tolla upp á sitt einsdæmi. Það sem var samið um var því óframkvæmanlegt nema með frekari lagasetningu.

Þessi útskorna hurð stafkirkjunnar í Urnes er frá 12. öld og er talin sýna Ragnarök en gæti um leið verið táknmynd fyrir afleiðingar þess að auka innflutningskvóta sérosta í tveimur en ekki fjórum áföngum.Wikimedia Commons/ Nina Aldrin Thune

Fótunum nánast kippt undan íslenskum landbúnaði í beinni á Alþingisrásinni

Nú má deila um hvar sökin liggi á endanum og hver eigi að axla ábyrgðina - búið er að kjósa tvívegis til Alþingis frá því þetta meinta klúður átti sér stað og gerir það myndina töluvert óskýrari hvað varðar flokkadrætti.

Þangað til um hálf níu í gærkvöldi virtust meirihlutar þingsins og atvinnuveganefndar (þá og nú) í það minnsta vera sammála um það grundvallaratriði að virða bæri þetta samkomulag frá 2016 með því að setja sérstök lög um títtnefnda osta. Þar með yrði málið frá og allir gætu farið að hugsa um eitthvað annað.

Ríkisstjórnin, í formi Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra, hafði lagt fram lagafrumvarp til þess eins að leiðrétta ruglinginn um hvenær flytja mætti inn ostana langþráðu.

Atvinnuveganefnd lýsti áhyggjum af hagsmunum bænda í umfjöllun sinni um málið en lagði til að það yrði engu að síður samþykkt með breytingartillögu meirihlutans um að ostakvótinn hækkaði í tveimur skrefum en ekki einu eða fjórum.

Allt útlit var fyrir að þar með væri málinu lokið en í annarri umræðu um frumvarpið á níunda tímanum í gærkvöldi, þegar glitti í lok þingstarfa, andmæltu nokkrir þingmenn Miðflokksins því harðlega að verið væri að auka innflutning á ostum á kostnað íslenskra bænda.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, gekk svo langt að fullyrða að með því auka ostakvótann í tveimur skrefum í stað fjögurra væri málið til þess fallið að nánast kippa fótunum undan landbúnaði á Íslandi, en hann væri jú ein af undirstöðu atvinnugreinum landsins.

Við þetta, eða um leið og Sigmundur Davíð hafði lokið máli sínu, ákvað meirihluti atvinnuveganefndar að draga skyndilega til baka breytingartillögu sína við frumvarpið og leggja fram nýja breytingartillögu sem var ígildi frávisunar.

Sviksemi ostanna.imgur/midgerock

Ostalögin sem minnast ekki einu orði á ost

Á mannamáli þýðir þetta að á ögurstundu ákváðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar að hætta við allt saman og fara ekki eftir umtöluðum eða meintum vilja Alþingis og atvinnuveganefndar frá 2016. Ákveðið var að taka út allan texta um osta úr frumvarpinu um osta.

Frumvarp, hvers eini tilgangur var frá upphafi að leiðrétta mistök við ákvörðun ostkvóta, var því samþykkt af Alþingi og varð að lögum án þess að í textanum væri að finna eitt aukatekið orð um ost.

Eftir stendur að eina niðurstaða alls þessa máls, eftir alla vinnu þings og þingnefnda frá 2016, var að fella niður skatt á innfluttri brjóstamjólk sem nam nákvæmlega 37 lítrum í fyrra. Það var síðbúin viðbót við frumvarpið og eina ástæðan fyrir að það var ekki fellt með öllu.

Það er óhætt að segja að hagsmunasamtök á borð við Félag Atvinnurekenda séu ósátt við þessi málalok. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri segir í yfirlýsingu frá félaginu að skyndilegur viðsnúningur stjórnarþingmanna og nefndarmanna í atvinnuveganefnd í gærkvöld hafi verið afleiðing þess að hagsmunaaðilar í landbúnaði hafi beitt þá verulegum þrýstingi á lokametrunum.

Rökstuðningur og niðurstöður meiri hluta nefndarinnar virðast hafa tekið nokkrum breytingum á skömmum tíma samkvæmt þeim texta sem fyrir liggur.


Tengdar fréttir

Rifist á þingi um meint svik meirihlutans við Miðflokkinn

Til stóð að afgreiða ein átta mál með atkvæðagreiðslu við upphaf þingfundar en þess í stað hófst 40 mínútna umræða um frávísunartillögu á mál þingflokks Miðflokksins um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu.






×