Íslenski boltinn

Ólsarar vígðu nýjan völl með sigri og svakaleg dramatík í grannaslagnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gervigrasið kemur vel út í Ólafsvík.
Gervigrasið kemur vel út í Ólafsvík. vísir/twitter-síða Ólsara

Víkingur Ólafsvík vígði nýjan gervigrasvöll með 3-0 sigri á Leikni úr Reykjavík en þrír leikir fóru fram í Inkasso-deildinni í kvöld.

Víkingur skoraði þrjú mörk í síðari hálfleik gegn Leikni. Alexander Helgi Sigurðsson skoraði fyrsta markið á 50. mínútu og þeir Emmanuel Keke og Kwame Quee bættu við sitt hvoru markinu í uppbótartíma.

Ólsarar eru komnir í fjórða sæti deildarinnar en þeir eru með þrettán stig, fjórum stigum á eftir toppliði ÍA. Leiknismenn eru hins vegar í tíunda sæti með sex stig.

Það var heldur betur fjör í grannaslag Magna og Þórs en Þór vann 2-1 sigur í leik liðanna á Grenivík í kvöld.

Bergvin Jóhannsson kom Magna yfir á 70. mínútu en einungis tveimur mínútum síðar fékk Agnar Darri Sverrisson sitt annað gula spjald. Magnamenn því einum færri.

Þórsarar voru ekki lengi að snúa leiknum sér í vil. Ívar Sigurbjörnsson skoraði sjálfsmark á 85. mínútu og staðan jöfn 1-1 en sigurmarkið skoraði Ignacio Gil þremur mínútum fyrir leikslok.

Þór er í þriðja sæti deildarinnar með fjórtán stig, stigi á eftir HK sem er í öðru sætinu og þremur stigum á eftir toppliði ÍA. Magnamenn eru á botninum með þrjú stig.

Minnsta fjörið var í toppslagnum í Inkasso en HK og ÍA skoruðu ekki mark í kvöld. Leik liðanna lauk með markalausu jafntefli og staða liðanna því óbreytt; Skagamenn á toppnum, stigi á undan HK sem er í öðru sætinu.

Úrslit og markaskorarar eru fengin frá fótbolti.net.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.