Enski boltinn

Aron Einar kominn með tvo nýja liðsfélaga

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Warnock og Tan eru byrjaðir að versla
Warnock og Tan eru byrjaðir að versla vísir/getty
Cardiff City hefur gengið frá kaupum á tveimur nýjum leikmönnum en liðið vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni með því að hafna í 2.sæti ensku B-deildarinnar á síðustu leiktíð.

Leikmennirnir sem um ræðir eru annars vegar vinstri bakvörðurinn Greg Cunningham, sem kemur frá Preston North End og hins vegar Josh Murphy, sem kemur frá Norwich.

Cunningham er 27 ára gamall og hefur leikið í B-deildinni nær allan sinn feril. Josh Murphy er 23 ára gamall kantmaður sem vakti athygli með Norwich í B-deildinni á nýafstaðinni leiktíð en tvíburabróðir hans, Jacob Murphy er á mála hjá Newcastle.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson hefur verið í lykilhlutverki hjá Cardiff frá árinu 2011. Samningur hans rennur út í sumar en hann mun væntanlega taka ákvörðun um framtíð sína þegar þátttöku Íslands á HM í Rússlandi lýkur.

Í dag var gefin út leikjaniðurröðun fyrir ensku úrvalsdeildina og mun Cardiff hefja leik á útivelli gegn Bournemouth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×